Það hefur varla farið framhjá nokkurri manneskju umræðan undanfarið um stjórnmálamenn sem geyma peningana sína eða maka sinna í skattaskjólum í gegnum aflandsfélög. Þrátt fyrir þá staðreynd að upplýsingum um þetta hafi vísvitandi verið haldið leyndum fyrir almenningi, reyna stjórnmálamennirnir að koma með skrautlegar skýringar og tala í allskonar hringi. Upphæðirnar sem um ræðir eru heldur engir smáaurar, þetta eru upphæðir sem almenningur dregur ekkert upp úr verðtryggðum og gjaldeyrisheftum buddum sínum. Þessir sömu stjórnmálamenn gelta reyndar hver í kapp við annan um að ekkert skattalegt hagræði hljótist af þessu fyrirkomulagi. Þetta gelt kemur samt úr kjafti sömu stjórnmálamannana og hagnast vel á afnámi auðlegðarskattsins sem þeir hafa hreykt sér af að hafa komið til leiðar.
Fólkið í landinu virðist gáttað og reitt. Reiðina skil ég ósköp vel en hvernig fólk getur verið hissa er ofar mínum skilningi. Það er ekki eins og það sé eitthvað nýtt í íslenskum stjórnmálum að þangað sæki fólk sem aðallega stundar rúnk á sjálfum sér og tengdum hagsmunaöflum.
Minni íslenskra kjósenda virðist ekki vera upp á marga fiska, ekki einu sinni gullfiska. Það þarf ekki annað en hljómfögur hástemmd loforð um bætt kjör með ýmis konar brellum til að hreinsa minni kjósenda eins og hvern annan flór. Ég vil því lýsa yfir vantrausti á íslenska kjósendur og boða sem fyrst til nýrra kosninga. Gefa stjórnmálamönnum færi á því að leggja loforð sín undir nýja kjósendur. En það er nú kannski ekki um auðugan garð að gresja í þeim efnum. Fjöldi nýrra kosningabærra manna er ekki mikill hér á landi svo það er spurning hvort ekki væri ráð að hefja innflutning á nýjum og betri kjósendum.
Nei, miðað við aukið fylgi hægri öfgaafla í Evrópu og víðar er ekki víst að innflutt sé betra. Svo kýs fólk yfir sig spillingu, prump og silfurskeiðarelítur víðar en á Íslandi. Lítum bara til Bandaríkjanna þar sem Repúblikanar eru í þann mund að kjósa yfir sig heilalausa fasistan Donald Trump sem forsetaefni. Demókratar aftur á móti eru á góðri leið með að velja sér Hillary Clinton sem sitt forsetaefni en hún er sami Wallstreet rúnkarinn og eiginmaður hennar og er í raun og veru ekkert annað en helvítis Repúblikani. þannig að innflutt er ekki endilega betra.
Það verður líka að koma fram íslenskum kjósendum til varnar að valkostirnir hafa kannski ekki alltaf verið svo ýkja fjölbreyttir eða góðir yfir höfuð. Nú er stjórnarandstaðan að ræða möguleikann á að leggja fram þingrofstillögu og boða til nýrra kosninga. Mér heyrist fólk svona almennt vera að taka undir í svipuðum dúr. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar hefur misst niður um sig all svakalega og erfitt er að sjá hvernig stjórnin á að geta hysjað upp um sig. Það er líka forvitnilegt að vita hvort stjórnmálaelítan kvíði ekki sérstökum Kastljósþætti sem sýndur verður á Rúvinu annað kvöld en sá þáttur verður helgaður rannsókn íslenskra og erlendra rannsóknarblaðamanna á tengingum ráðamanna á Íslandi við aflandsfélög í skattaskjólum.
Hvað ef þingrofstillaga verður lögð fram og hvað ef slík tillaga verður samþykkt? Gefum okkur það að kjósendur sé komnir með spýjuna upp í kok af núverandi stjórnvöldum og muni eftir því á kjördag að greiða ekki stjórnarflokkunum atkvæði sitt, tja þar til í þarnæstu kosningum. Hvað er þá eftir til að kjósa? Samfylkinguna? Hún er í dag líklega það getulausasta drasl sem íslensk pólitík hefur nokkru sinni boðið upp á. Fyrir utan kannski Bjarta framtíð en hún er bara svo lítil og krúttleg, svo lítil að hún mælist varla lengur. Eigum við þá að kjósa Vinstri græna? Yfirlýsta græningjaflokkinn sem ekki hafði manndóm í sér að leggjast gegn olíuleit á Drekasvæðinu í síðustu ríkisstjórnartíð sinni og lét það verða eitt af sínum síðustu verkum að veita allskonar ívilnanir til þess að stóriðja gæti risið á Bakka við Húsavík. Píratar eru eina virkilega stjórnmálaaflið í dag sem hefur enn ekki fengið tækifæri til að skíta upp á bak í ríkisstjórn. Ég er hér að tala um núverandi þingflokka en tel að sjálfsögðu ekki Bjarta framtíð með, því ég er búinn að vera að leita að henni en hún virðist hafa gufað upp. Píratar eru með svo til óflekkað orðspor ennþá en þeir hafa þó verið að rífast eins og hundar og kettir undanfarið. Það verður líka forvitnilegt að sjá hvernig þeir bregðast við þegar Guðmundur Steingrímsson og aðrir framapotarar vilja komast á lista hjá þeim. Eflaust verður fullt af einhverjum drasl framboðum í boði líka eins og Flokkur heimilanna fyrir Útvarp Sögu-liðið og fleira gott.
Það virðist ekki vera allur munurinn á skít og kúk. Verðum við þá ekki bara að flytja inn nýja og betri stjórnmálamenn? Er ekki Berlusconi laus úr fangelsi? Nei ég er ekki viss um að innlflutningur á pólitíkusum yrði ábatasamur fyrir íslenskt samfélag. Eitt er það þó sem ég myndi gjarna vilja sjá flutt til landsins en það er sérhannaður manndómur fyrir vonda stjórnmálamenn. Það virðist nefnilega vera svo að vondir stjórnmálamenn víða í útlöndum hafi manndóm sem skortur er af á Íslandi til að segja af sér þegar þeir eru búnir að skíta á sig. /eipi.