Já vorið er sú árstíð sem ég elska mest. Sennilega er það líka ljótasta árstíðin. Allt skítugt, grasið gulbrúnt, tré og runnar berir. En svo breytist allt á augabragði. Og daginn sem sólgulur fífill brosir við mér, feit hunangsfluga flýgur framhjá, eða kónguló spásserar yfir borðið sem ég sit við, þá hellist þessi barnslega gleði og tilhlökkun vegna sumars sem er í vændum yfir mig. En besta vormerkið er án efa að það birtir.
Á vorin fer fólk á stjá, börn sjást útivið, á hjólum eða hlaupandi um, sundlauga heimsóknum fjölgar og ísinn fer að seljast betur. Þá þarf líka að þrífa garðinn og húsið, ditta að því sem aflaga hefur farið og viðhalda því sem þarf. Sumir eru með ,,græna fingur” og elska að róta í moldinni, planta nýjum plöntum og annast um gamlar í tíma og ótíma, á meðan aðrir taka á sig rögg og gera það sem nauðsynlega þarf til þess að þetta líti sómasamlega út og enn aðrir láta sem þetta komi þeim ekki við.
Verst finnst mér þegar fólk eitrar allt í kringum sig! Eins og fólk sé það eina mikilvæga í veröldinni, svo mikilvægt að lús á runnablaði, roðamaur á gluggasillu eða bara kónguló í vef sínum ógni mikilvægi þeirra og rétti þeirra til að vera útivið. Og þá tekur fólk til við að eitra… og svo festist það í því, ekkert vor/sumar án eitrunar í stað þess að leyfa náttúrunni að hafa sinn gang og koma á jafnvægi.
Ég hvet fólk til að prófa að sprauta vatni á runna og hús reglulega og þannig má halda aftur af smádýrunum án þess að dæla eitri sem safnast saman í stærri dýrum, yfir allt og ekkert.
Dilla