"Tekjutap okkar er fyrst og fremst tilkomið vegna þess að við höfum ekki getað innheimt fé vegna sölu á auglýsingum á skiltum við laugarbakkann. Að jafnaði höfum við töluverðar tekjur af þessari auglýsingasölu," segir Ásta. Skiltin voru girt af snemma í vor, síðar um sumarið voru þau tekin niður og nú segir Ásta að ekki sé vitað í hvernig ástandi þau séu. "Við höfum ekki getum endurnýjað samninga við okkar styrktaraðila eins og til stóð að gera í vor og því höfum við orðið af töluverðum tekjum," segir Ásta.
Til að bæta gráu ofan á svart, sá félagið sér ekki fært að halda Aldursflokkameistaramót Íslands í sundi í lok júní á liðnu sumri líkt og Sundsamband Íslands hafði óskað eftir. Ekki þótt gerlegt að boða um 600 manns á sundlaugarbakkann eins og staða mála var á þeim tíma, "og er raunar enn," bætir Ásta við, því að hennar sögn ganga framkvæmdir við lóð laugarinnar afar hægt. Þeim átti að ljúka í byrjun sumar, er ekki lokið, en vonir standi til að lokið verði við lóðina í næsta mánuði í tengslum við opnun líkamsræktarstöðvarinnar.
"Við erum að sækja svo til öll okkar mót á höfuðborgarsvæðinu og það hefur mikinn kostnað í för með sér. Það gefur því augaleið að það að missa tekjur af stóru sundmóti og líka styrki frá styrktaraðilum okkar mun setja stórt strik í rekstur þessa árs," segir Ásta.
Íþróttaráð fjallaði um málið á fundi nýlega og vísaði erindi Sundfélagsins til Fasteigna Akureyrarbæjar en Ásta segir að félagið fari fram á að fá bætur frá bæjarfélaginu vegna tekjumissis.