09. október, 2009 - 16:28
Fagfélagið stóð á dögunum fyrir hófi þar sem nýútskrifaðir sveinar í byggingariðnaði fengu í hendurnar
sveinsbréf því til staðfestingar að þeir hefðu lokið námi í sinni iðngrein. Alls útskrifuðust 48 nýsveinar í
fjórum iðngreinum, 2 húsgagnasmiðir, 31 húsasmiður, 7 málarar og 8 pípulagningarmenn. Síðast var sveinspróf í
húsgagnasmíði haldið á Akureyri 1989. Hér er um að ræða stærsta hóp sem útskrifaður hefur verið í
byggingariðnaði í Eyjafirði á sama tíma.
Þessi stóri hópur er dæmi um þann mikla uppgang sem verið hefur í byggingariðnaði á undanförnum árum, segir í
tilkynningu. Þetta eru nemar sem tóku sveinspróf í desember 2008 og júní 2009 en þeir hafa flestir stundað nám sitt við
Verkmennaskólann á Akureyri og fjölbrautarskóla Sauðárkróks. Sveinarnir fengu allir útskriftargjöf frá Fagfélaginu og
gjafabréf á námskeið hjá Iðunni fræðslusetri.