Þær eiga einnig sameiginlegt að vinna með fundna hluti og alls konar lífræn og ólífræn efni og aðferðir. Þorbjörg útskrifaðist frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1988. Tveimur árum síðar hélt hún á vegum skiptinemasamtakanna A.U.S til Mexíkó þar sem hún dvaldi næstu tólf mánuði og stundaði tónlistarnám og starfaði sem músiktherapisti. Árið1993 urðu tímamót í hennar lífi þegar hún kynntist Önnu í versluninni Fríðu frænku þar sem hún starfaði á árunum 1994-2002. Nokkru síðar var stefnan tekin norður til Akureyrar og árið 2004 opnaði hún sjálf, ásamt Guðrúnu Jónsdóttur, búðina Frúin í Hamborg. Það má segja að í gegnum búðina hafi hún þróað sína myndlist.
Þórunn Elísabet hefur starfað innan leikhússins í hartnær 30 ár og getið sér gott orð fyrir búningahönnun og sviðsmyndir. Þórunn útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands í frjálsri myndlist 1982 en fljótlega eftir að námi lauk tók hún að sér verkefni fyrir leikhúsin. Meðfram fjölbreyttu og krefjandi starfi í leikhúsunum hefur Þórunn unnið að myndlist og haldið einkasýningar ásamt því að taka þátt í ýmsum samsýningum. Hrafnhildur útskrifaðist með MFA-gráðu frá School of Visual Arts í New York árið 1996, þar sem hún hefur búið og starfað allar götur síðan. Listamannsnafn hennar er Shoplifter. Í verkum sínum tekst hún á við fyrirbæri eins og hégóma, sjálfsmynd, fegurð og tísku og kemur með margvíslegum hætti inn á þráhyggju og blæti, afsprengi nútímalifnaðarhátta.
Sýningarstjóri er Hannes Sigurðsson en sýningin stendur til 13. desember. Aðgangur er ókeypis í boði Akureyrarbæjar.