Eitt markmiða skjaladagsins er að efla vitund fólks um að skjalasöfn séu tryggir vörslustaðir skjala og er fólk hvatt til að hafa samband við starfsfólk skjalasafna ef það hefur undir höndum skjöl sem það veit ekki hvað á að gera við.
Þema skjaladagsins í ár á Íslandi er „Konur og kvenfélög" en Félag héraðsskjalavarða ásamt Kvenfélagasambandi Íslands hefur staðið fyrir átaki á söfnun skjala kvenfélaga um land allt. Á vef skjaladagsins http://www.skjaladagur.is/ er sýnishorn af þeim skjölum sem kvenfélög víða um land hafa afhent á héraðsskjalasöfn auk ýmissa annarra skjala sem tengjast konum og hagsmunabaráttu þeirra.
Í tilefni dagsins verður skipulögð dagskrá á Þjóðskjalasafni Íslands og mörg héraðsskjalasafnanna verða einnig með opið hús þennan dag. Héraðsskjalasafnið á Akureyri tekur þátt í norræna skjaladeginum með framlagi á vef skjaladagsins og þann dag, þ.e. laugardaginn 14. nóvember verður einnig opið hús og heitt á könnunni á safninu í Brekkugötu 17 frá kl. 12:00 til 17:00. Þar verður opnuð sýning sem helguð er kvenfélögum í héraðinu og mun hún standa út nóvembermánuð.