26. febrúar, 2007 - 10:23
„Svifrykið sem hefur verið að mælast svona mikið hjá okkur hér á Akureyri er hættulegt heilsu fólks. Rannsóknir í Stokkhólmi hafa sýnt þá niðurstöðu að þessi mengun fækkar lífdögum fólks t.d. meira en umferðin og þetta er vaxandi vandamál sem verið er að taka á með sífellt meiri krafti," segir Alfreð Schiöth hjá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra. „Þetta er mjög slæm mengun fyrir alla en ekki síst fyrir þá sem eru með lungnasjúkdóma og asma og einnig fyrir þá sem eru með hjartasjúkdóma og aðra æðasjúkdóma," segir Alfreð. Eins og fram hefur komið, hefur svifryk sem mælt hefur verið á gatnamótum Tryggvabrautar og Glerárgötu á Akureyri mælst í miklu meira magni og oftar, en gefið er út af alþjóðastofnunum að „leyfilegt" sé. Þar var t.d. miðað við að ákveðið magn svifryks mætti mælast í 29 daga á síðasta ári en mældist í 48 daga á Akureyri þá mánuði sem þegar er búið að lesa af fyrir síðasta ár á Akureyri og fer sennilega í 55 daga þegar öll kurl eru komin til grafar. Til viðmiðunar mældist svifrykið of mikið í Reykjavík í um 30 daga og Akureyri er með svipaðar tölur og Osló. Herða á mjög reglur um svifryk á næstu árum og árið 2010 eiga dagarnir sem rykið mælist yfir ákveðnum mörkum að vera komnir niður í sjö.
„Ef leitað er skýringa á þessari miklu mengun á Akureyri þá er það alveg ljóst að miklar stillur í veðri að vetrarlagi með kuldapollum við jörðu hafa mikil áhrif. Svifryksmengunin stafar aðallega frá malbiksögnum og með ýmsum ráðum mætti vinna á móti," segir Alfreð.