Athygli vakti að Akureyri byrjaði með Andra Snæ Stefánsson í hægra horninu, en venjan er að örvhentir leikmenn spili þar. Andri skilaði hins vegar hlutverki sínu með sóma í leiknum. Gríðarlega sterkar varnir beggja liða sáu til þess að mjög lítið var skorað í leiknum og eftir 15 mínútna leik var staðan 5-3 fyrir Akureyri.
Sveinbjörn Pétursson í marki Akureyrar hafði á þessum tímapunkti varið stórkostlega og var strax kominn með 11 skot varin.
Því miður náðu Akureyringar ekki að láta kné fylgja kviði og bæta við forskot sitt, heldur hleyptu Haukum inn í leikinn. Kafli þar sem Haukar skoruðu 6 mörk gegn 1 sá til þess að Haukar náðu þriggja marka forystu. Góður endasprettur frá Akureyri lagaði hins vegar stöðuna fyrir hálfleik en þá var staðan 11-10 Haukum í vil.
Seinni hálfleikurinn var mjög jafn og spennandi allan tímann, bæði lið spiluðu frábæra vörn og ekki skal gleyma frábærum leik Sveinbjarnar í markinu sem hélt áfram að verja frábærlega og varði alls 24 skot í leiknum.
Þegar um 4 mínútur lifðu leiks var spennan í hámarki og stemmningin í húsinu gríðarleg, þökk sé nýjum stuðningsmannahópi Akureyrar sem á hrós skilið fyrir sitt framlag í kvöld.
Því miður hins vegar gjörsamlega hrundi sóknarleikur Akureyrar undir lokin, engin þorði að taka af skarið og Akureyri skoraði ekki mark það sem eftir var leiks. Haukar hins vegar skoruðu fimm og þar af þrjú á síðustu mínútunni. Lokatölur því 27-22 fyrir Hauka en þessi munur gefur engan vegin rétta mynd af leiknum þar sem sigurinn hefði allt eins getað endað hjá Akureyri.
Varnarleikur og markvarsla Akureyrar í kvöld var með besta móti, vörnin hreyfanleg og ákveðin og Sveinbjörn í banastuði fyrir aftan. Því miður hins vegar var sóknin slök og munaði þar mikið um að skyttur Akureyrar áttu mjög dapran dag. Einar Logi Friðjónsson komst ekki á blað og Magnús Stefánsson skoraði einungis eitt mark úr 11 tilraunum. Einnig má segja að boltinn hafi gengið full hægt milli manna í sókninni.
Þriðja tapið í röð staðreynd hjá Akureyri, en leikur liðsins er á réttri leið sé mið tekið af leiknum í kvöld.