Sveinbjörn samdi við Aue

Sveinbjörn Pétursson mun spreyta sig í Þýskalandi næsta vetur.
Sveinbjörn Pétursson mun spreyta sig í Þýskalandi næsta vetur.

Markvörðurinn Sveinbjörn Pétursson hefur gert tveggja ára samning við þýska b-deildarliðið Aue í handknattleik en þetta staðfesti Sveinbjörn við Vikudag. Eins og Vikudagur greindi frá í morgun hefur Sveinbjörn ákveðið að yfirgefa herbúðir Akureyringa eftir tvö farsæl tímabil en hann hefur verið lykilmaður hjá liðinu og verið einn besti markvörður N1-deildarinnar undanfarin ár.

„Þetta er frábært tækifæri fyrir mig til að taka næsta skref sem handboltamaður og ég er mjög spenntur fyrir þessu. Það er flott aðstaða þarna og liðið er að styrkja sig eftir að hafa komið upp úr C-deildinni í vetur. Ég tel þetta lið hentar mér vel til gera mig að betri handboltamanni,“ sagði Sveinbjörn í spjalli við Vikudag.

Hann segir aðdragandan að félagaskiptunum hafa verið stuttan, en Sveinbjörn hafði nýlega samið við Akureyringa til eins árs og því nokkuð óvænt tíðindi.

„Þeir hjá Aue höfðu samband við mig strax þegar tímbilinu hérna var lokið og þetta var of gott tækifæri til þess að hafna því. En ég fer frá Akureyri með söknuði því ég hef átt afar góðan og lærdómsríkan tíma hjá liðinu. Ég náði að springa út fyrir norðan og vekja athygli á mér,“ sagði Sveinbjörn.

Nýjast