Suðrænn saltfiskur, kjúklingur og bollakökur

Halla Einarsdóttir.
Halla Einarsdóttir.

Halla Einarsdóttir tók áskorun samstarfskonu sinnar Hörpu Ævarsdóttur og hún er hér mætt með grinilegar uppskriftir í matarkrók vikunnar. “Ég valdi að bjóða upp á saltfiskrétt sem hefur verið vinsæll á mínum borðum sem og dóttur minnar og tengdasonar sem bjuggu nokkur ár á Spáni og buðu þá gestum gjarnan upp á hann. Í öðru lagi er ég með nokkuð sterkan kínverskan kjúklingarétt sem getur ekki klikkað, þó það sé smá fyrirhöfn við eldamennskuna. Að síðustu kemur hér uppskrift af sívinsælum bollakökum,” segir Halla.

Suðrænn saltfiskur 

500 g saltfiskur ( útvatnaður )

6 soðnar kartöflur

1/2 krukka sólþurrkaðir tómatar (olían er notuð líka )

200 g rifinn ostur

1 dós niðursoðnir tómatar, saxaðir

4 hvítlauksrif

1/2 búnt fersk steinselja

1 rauðlaukur, saxaður

1 púrra ( græni hlutinn )saxaður

2 gulrætur, saxaðar

1 rauð paprika, söxuð

1 kjúklingateningur ( Knorr )

1/2 msk. paprikuduft

1/2 tsk. hvítur pipar

2 msk. sítrónusafi

Sjóðið saltfiskinn hæfilega, roð- og beinhreinsið ef þarf og losið í sundur. Saxið eða hálfstappið kartöflurnar og saxið sólþurrkuðu tómatana.  Hitið olíuna ( af sólþurrkuðu tómötunum ) á pönnu og bætið í hvítlauknum, steinseljunni, rauðlauknum, púrrunni, gulrótunum, og paprikunni og látið krauma smá stund. Stráið þá yfir kryddinu og bætið á pönnuna niðursoðnu tómötunum, kjúklingateningnum og sítrónusafanum. Látið þetta malla í u.þ.b. 30 mínútur.Hrærið þá saltfiskinum, kartöflunum og sólþurrkuðu tómötunum saman við, setjið í eldfast mót og stráið rifnum ostinum yfir. Bakið í 200° heitum ofni þar til osturinn byrjar að brúnast.

Szechuan kjúklingur 

3-4 kjúklingabringur

2 eggjahvítur

2 msk. maíssterkja 

sósa:

2 msk. hrísgrjónavín (ég nota oftast hvítvín)

1 tsk. worchestersósa

2 tsk. tabasco sósa

2 msk. sesamolía

1 tsk. soya sósa

2 msk. púðursykur

¼ tsk. cayenne pipar

½ tsk. chiliflögur (eða mulinn þurrkaður chilipipar)

biti af engifer, saxaður smátt þannig að mælist ein msk. 

4 gulrætur, skornar í ræmur

½ rauð paprika (helst ramiro), skorin í ræmur

½ græn paprika, skorin í ræmur

3-4 vorlaukar, skornir í sneiðar

allt að 1 bolli góð grænmetisolía

Þerrið kjúklinginn og skerið í örþunna strimla (gott að skella í frystinn í smá stund til að ná sneiðunum þunnum). Blandið saman öllu sem á að fara í sósuna og setjið til hliðar. Pískið saman eggjahvítur og maíssterkju. Hitið olíuna í Wok pönnu (eða bara djúpri pönnu). Blandið kjúklingnum saman við eggjablönduna og snöggsteikið í smá skömmtum í olíunni, takið af pönnunni og leggið á eldhúspappír. Fjarlægið olíuna af pönnunni og setjið 1. msk. af nýrri olíu. Þegar olían er orðin vel heit, bætið þá gulrótunum útí og síðan paprikunni. Hellið sósunni saman við og að lokum kjúklingnum. Látið malla í 1-2 mínútur og stráið þá vorlauknum yfir. Borið fram með hrísgrjónum og salati. 

Dúnmjúkar bollakökur 

8 dl hveiti

1 tsk. lyftiduft

1 ¼ tsk. natron

½ tsk. salt

350 g mjúkt smjörlíki

5 dl sykur

4 egg

3 dl súrmjólk

2 tsk. vanilludropar

½ poki dökkir súkkulaðispænir

Þeytið saman smjörlíki og sykur og bætið síðan eggjunum í, einu í senn. Þá súrmjólkinni og vanilludropunum. Blandið saman þurrefnunum og setjið saman við smátt og smátt. Bakið í muffinsformum við á blæstri við 170° hita.

Nýjast