Styttist í opnun steypireiðarsýningar á Húsavík

Halldór Gíslason og Jan Klitgaard, ekki fjarri því að vera í hvalsmaga eins og Jónas forðum daga.  M…
Halldór Gíslason og Jan Klitgaard, ekki fjarri því að vera í hvalsmaga eins og Jónas forðum daga. Mynd: Heiðar Kristjánsson.

Hvalasafnið á Húsavík hefur verið lokað gestum og gangandi í vetur þar sem unnið hefur verið að uppsetninga á beinagrind steypireiðarinnar  sem rak á land á Skaga árið 2010. Grindin endaði svo á Húsavík, kom þangað fyrir nokkrum mánuðum eftir töluvert japl, jaml og fuður í stjórnsýslunni og pólitíkinni áður en grindinni var valið aðsetur hér, en tímabundið að sögn þar til bærra yfirvalda.

Nú sér reyndar fyrir endann á verkinu og verður Hvalasafnið, og þar með sýning á steypireiðinni, opnað 1. mars n.k.  Laugardaginn 12. mars verður svo formlegt opnunarhóf  í safninu fyrir boðsgesti og þá mun menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, mæta á staðinn og undirrita nýjan samstarfssamning við Hvalasafnið.

Við litum  við í Hvalasafninu í gær. Þá voru starfsmenn safnsins, Jan Aksel Harder Klitgaard, Halldór Gíslason og fleiri raunar að hamast, snúast í kringum grindina, snurfusa og gera það sem til þarf svo sýningin verði klár og sem glæsilegust þegar opnað verður 1. mars.

Greinilegt er að menn hafa skipt um kúrs frá upphaflegum áætlunum um sýningu á steypireiðinni og sagði Jan það rétt vera. Hugmyndin var sem sé að dreifa beinum grindarinnar í tilbúna sandfjöru, rétt eins og þar hefði hvalurinn strandað fyrir löngu síðan og “straumar og votir vindar síðan velkt henni til og frá”  í fjörunni. Frá þessu hefur sem sagt verið horfið og grindin sett upp heil, en að vísu þurfti að sveigja aftasta hlutann þar sem salinn skorti lengd.

“Steypireiðurin var 25 metrar þegar hana rak á land á Skaga, en grindin er uppsett 22 metrar. Það stafar m.a. af því að það er engin sporður lengur til staðar, í honum eru engin bein, aðeins brjósk, þannig að sporðurinn er að sjálfsögðu horfinn.” Sagði Jan Aksel.

Þórarinn Blöndal er aðalhönnuður sýningarinn, en einnig hafa lagt hönd a plóginn hinn ómissandi Þorvaldur hamskeri sem hefur komið að flestum verkefnum Hvalasafnsins frá upphafi og ýmsir  fleiri JS

 

Nýjast