Styrktartónleikar fyrir Kisukot á Græna hattinum

Í kvöld, fimmtudagskvöld kl. 21.00, verða styrktartónleikar á Græna hattinum fyrir Kisukot, sem er nýstofnað afdrep fyrir týnda ketti hér í bæ, sem Ragnheiður Gunnarsdóttir hefur rekið í heimahúsi. Á tónleikunum koma fram; Ingó Hansen, Aron Óskarsson og Hans Friðrik, Valmar Väljaots, hljómsveitin Berklarnir og Inga Dagný Eydal. Þar að auki mun Anna Dóra Gunnarsdóttir segja frá köttunum sínum í gegnum tíðina á gamansaman hátt. Kynnir kvöldsins er Pétur Guðjónsson. Aðgangseyrir er1500 krónur sem rennur óskiptur í Kisukot.

Kisukot er starfsemi, rekin af Ragnheiði en hún hefur bjargað og tekið að sér týnda, villta og heimilislausa ketti. Ragnheiður stendur ein undir öllum kostnaði og því vilja þeir sem að tónleikunum koma hjálpa bæði henni og kisunum með þessu litla styrktarkvöldi. Kisukot er einhvers konar Kattholt Akureyrar. Starfsemin er rekin í heimahúsi og vonandi í framtíðinni getur Kisukot stækkað við sig.

Á föstudagskvöld kl. 22.00 eru tónleikar með KK Band á Græn hattinum en þeir halda uppá 20 ára afmæli um þesar mundir. Bandið skipa eins og forðum þeir KK gítar og söngur, Kommi trommur og söngur og Þorleifur bassi og söngur. Á laugardagskvöld kl. 22.00 stíga á svið Beggi Smári og hljómsveitin hans Mood. Platan hans samnefnd hljómsveitinni kom út á síðasta ári og hefur hlotið afbragðsdóma og viðtökur.

 

Nýjast