Úthlutað hefur verið úr Sprotasjóði mennta- og menningarmálaráðuneytisins fyrir skólaárið 2012-2013. Sprotasjóður er sameiginlegur fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Hlutverk sjóðsins er að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi. Alls bárust 190 umsóknir að þessu sinni en mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að tillögu stjórnar, að veita styrki til 46 verkefna að upphæð rúmlega 43 milljónir króna. Skóladeild Akureyrarbæjar fékk þrjár milljónir króna í styrk vegna verkefnisins; Innleiðing nýrrar aðalnámskrár, mótun og gerð skólanámskrár. Verknefnið tengist öllum 10 grunnskólum bæjarins. Brekkuskóli fékk hálfa milljón króna í styrk vegna verkefnisins: Rafrænt nám í Brekkuskóla. Þelamerkurskóli í Hörgársveit fékk einnig hálfa milljón króna í styrk, vegna verkefnisins; Heilsueflandi grunnskóli. Samstarfsaðilar skólans eru Ferðafélagið Hörgur, Líkamsræktin Bjarg og Rauði kross Íslands, Akureyri. Þá fékk leikskólinn Krummakot í Eyjafjarðarsveit styrk að upphæð 900 þúsund krónur, vegna verkefnisins; Ný markmið aðalnámskrár: Sex grunnþættir menntunar.
Áherslusvið Sprotasjóðsins voru að þessu sinni: Þróun skólanámskrár með hliðsjón af nýrri menntastefnu og virkt lýðræði, mannréttindi og samskipti í skólum Stjórn sjóðsins, er skipuð fulltrúum frá Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samstarfsnefnd háskólastigsins og mennta- og menningarmálaráðuneyti.