Styrkja Hafdísi fram yfir Ríó 2016

Hafdís við nýja bílinn, ásamt Hauki Ármannssyni og Kristjáni Kristjánssyni.
Hafdís við nýja bílinn, ásamt Hauki Ármannssyni og Kristjáni Kristjánssyni.

Toyota Akureyri og Tryggingamiðstöðin hafa sameinast um að styrkja frjálsíþróttakonuna Hafdísi Sigurðardóttur fram yfir Ólympíuleikana í Ríó í Brasilíu sumarið 2016. Toyota Akureyri leggur Hafdísi til nýja og glæsilega Toyota Yaris Hybrid bifreið endurgjaldslaust, sem TM tryggir á þessu tímabili, Hafdísi að kostnaðarlausu.

Hafdís er ein fremsta frjálsíþróttakona landsins, margfaldur Íslandsmeistari í hlaupagreinum og langstökki og þá hefur hún verið valin Íþróttamaður Akureyrar síðastliðin tvö ár. Hafdís hefur enn ekki náð lágmarki fyrir Ólympíuleikana í Ríó en hún ætlar sér að ná lágmarkinu í langstökki á þeim tíma sem framundan er. Hafdís á Íslandsmetið í langstökki, bæði innanhúss og utan, 6,47 m innanhúss og 6,41 m utanhúss.

Ólympíulágmarkið í langstökki kvenna er 6,70 m og besti árangur Hafdísar í greininni, sem hún náði á síðasta ári, er 6,72 m. Þá var meðvindur aðeins of mikill, þannig að sá árangur hennar fékkst ekki staðfestur sem Íslandsmet. Hann dugði Hafdísi hins vegar til þess að komast á Evrópumótið utanhúss í Zurich í Sviss, í ágúst í fyrra, þar sem hún hafnaði í 16. sæti.  Hafdís keppti einnig í langstökki á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum innanhúss í Prag í Tékklandi í síðasta mánuði, þar sem hún hafnaði í 12. sæti.

Haukur Ármannsson framkvæmdastjóri Toyota Akureyri, segir að fyrirtækið vilji með þessum stuðningi auðvelda Hafdísi að ná markmiði sínu. „Þar sem Hafdís stefnir að því að keppa í Ríó 2016 viljum við gera allt sem við getum til þess að aðstoða hana, þannig að hún geti sinnt sínum æfingum vel og án þess að hafa áhyggjur af bílamálum,“ segir Haukur.

Kristján Kristjánsson svæðisstjóri TM á Norðurlandi, tekur undir með Hauki, enda sé Hafdís glæsileg fyrirmynd og verðugur fulltrúi Íslands á Ólympíuleikunum á næsta ári.

Hafdís hefur jafnframt verið valin í landsliðshópinn sem tekur þátt í Smáþjóðaleikunum í Reykjavík í sumar, þar sem UFA á samtals 9 keppendur. Hafdís var valin til keppni í 100 og 200 m hlaupi, þrístökki og langstökki og í 4x100 m og 4x400 m boðhlaupi.

Nýjast