Í dag var formlega gengið frá styrkjum úr Afreks- og styrktarsjóði Akureyrarbæjar. Það eru skíðakonurnar Dagný Linda Kristjánsdóttir og Íris Guðmundsdóttir sem fá styrki úr sjóðnum fyrir næsta ár og sagði Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri við þetta tækifæri að þær væru báðar glæsilegar fyrirmyndir fyrir norðlenska skíðakrakka.
Auk afrekskvennanna tveggja og bæjarstjóra undirritaði Björn Gunnarsson varaformaðar Skíðafélags Akureyrar samninginn, sem formlega er á milli bæjaryfirvalda og Skíðafélagsins. Dagný Linda fær 12 mánaða styrk upp á 60 þúsund krónur á mánuði og Íris fær 25 þúsund krónur í 9 mánuði. Þær stunda æfingar erlendis.