Styrkir til meistaranáms í vistvænni orkunýtingu við RES - Orkuskólann

Í boði eru styrkir til meistaranáms í endurnýjanlegum orkugjöfum (MSc in Renewable Energy Science) við RES - Orkuskólann. Styrkirnir eru veittir af Landsvirkjun og nema fullum skólagjöldum þeirra sem hyggja á sérhæfingu á vatnsaflsbraut við RES skólaárið 2010 - 2011. RES býður upp á eins árs alþjóðlegt meistaranám (90 ECTS) í vistvænni orkunýtingu og endurnýjanlegum orkugjöfum.  

Námið er ætlað nemendum sem hafa lokið BSc námi í verkfræði, raungreinum eða sambærilegum greinum. Boðið er upp á meistaranámið í nánu samstarfi við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands, sem útskrifa nemendur skólans og veita hina formlegu meistaragráðu. Námsárið hefst í febrúar 2010 og verður boðið upp á sérhæfingu á fimm námsbrautum: Jarðhitaorku; Efnarafölum og vetnisorku; Lífmassaorku og vistvænu eldsneyti; Vatnsafli; og Orkukerfum og orkustjórnun.

Við RES stunda nú um 40 nemendur meistaranám á fjórum námsbrautum frá fjórtán þjóðlöndum. Mikil áhersla er lögð á að námið sé alþjóðlegt og fer öll kennsla fram á ensku, auk þess sem stór hluti kennara við skólann kemur frá erlendum háskólum. Meistaranemar skólans vinna rannsóknarverkefni sín í tengslum við íslensk orkufyrirtæki eða erlenda samstarfsháskóla og rannsóknastofnanir. RES - Orkuskólinn býður upp á fyrsta flokks aðstöðu í alþjóðlegu námsumhverfi, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast