Stúlknakór Húsavíkur heldur vortónleika í sal Borgarhólsskóla á morgun, sumardaginn fyrsta kl. 15. Kórinn syngur meðal annars lög um frið en einnig lög úr kvikmyndum og söngleikjum.
Undirbúningur fyrir þátttöku á kóramóti í Danmörku stendur sem hæst og fara stúlkurnar utan í byrjun maí í viku söngferð. 28 stúlkur á aldrinum 11 – 16 ára skipa kórinn og kórstjóri er Ásta Magg, sem er af þriðju kynslóð kórstjóra hér í bæ, en hún sjálf var í stúlknakór sem móðir hennar Hólmfríður Ben stýrði um árabil. Aðgangseyrir á tónleikana er kr. 1000 og innifalið kaffi/djús og kleina.
Þrjár söngmeyjar af 28 litu við hjá Skarpi í vikunni til koma á framfæri hvatningu til fólks um að mæta á tónleika Stúlknakórsins á sumardaginn fyrsta, þær Guðrún María Ólafsdóttir, Alexandra Ada Sigurjónsdóttir og Margrét Inga Sigurðardóttir. Þær stöllur sögðu að efnisskráin væri fjölbreytt, íslensk lög og erlend í bland, gömul og ný og m.a. lög sem Ásta kórstjóri söng þegar hún var í kórnum hjá mömmu sinni. Nýjustu lögin eru kannski úr myndinni Pitch Perfect sem margir kannast við. Þá er verið að æfa eitt lag með texta á dönsku, sem allir kórarnir, sem eru frá Norðurlöndunum, syngja saman á mótinu í Danmörku.
Þær hafa allar verið nokkur ár í Stúlknakórnum og einu sinni áður farið utan í söngferð, til Noregs árið 2013. Auk tónleikanna nú hafa stúlkurnar aflað farareyris með því að halda bingó og selja þar vöfflukaffi og einnig verið með lakkríssölu. Þetta hefur gengið vel, þannig að þær þurfa ekki að leggja mikið fram úr eigin vasa, eða forldranna, í ferðakostnað.
Á tónleikunum á Sumardaginn fyrsta mun nýstofnaður Kvennakór Húsavíkur koma fram í fyrsta sinn og einnig syngja með Stúlknakórnum í nokkrum lögum. Þessi kór var stofnaður í byrjun árs 2016 og er skipaður fyrrum Stúlknakórs meðlimum. Og kórstjóri að sjálfsögðu hin eina og sanna Hóffý. JS