Stórmeistaraefni í skák

Jón Kristinn Þorgeirsson er einn efnilegasti skákmaður landsins.
Jón Kristinn Þorgeirsson er einn efnilegasti skákmaður landsins.

Skákþing Norðlendinga, hið 81. í röðinni var haldið á Akureyri um síðustu helgi en keppendur voru tuttugu talsins, þar á meðal tveir alþjóðlegir meistarar úr Reykjavík, þeir Guðmundur Kjartansson og Einar Hjalti Jensson. Fyrirfram var gert ráð fyrir að slagurinn um sigur á mótinu yrði fyrst og fremst milli þeirra tveggja. Þeir voru enda í forystu þegar fjórum umferðum var lokið af sjö og höfðu þá gert jafntefli sín á milli.

Í fimmtu umferð beið Einar Hjalti hinsvegar ósigur fyrir hinum sextán ára gamla Jóni Kristni Þorgeirssyni og í þeirri sjöttu gerði Jón enn betur og lagði Guðmund Kjartansson að velli. Sú óvænta staða var þá komin upp í lokaumferðinni að tveir jafnaldrar frá Akureyri börðust um sigurinn á mótinu. Jón Kristinn var þá í forystu með fimm vinninga en Símon Þórhallsson kom á hæla honum með hálfum vinningi minna. Jón Kristinn stóð uppi sem sigurvegari á mótinu og er því bæði skákmeistari Norðlendinga og skákmeistari Skákfélags Akureyrar þetta árið.

Jón fékk sex vinninga af sjö mögulegum. Annar varð Guðmundur Kjartansson með fimm og hálfan vinning og Einar Hjalti þriðji með fimm vinninga. Símon fél niður í 4-5. sæti við tapið og fékk fjóran og hálfan vinning ásamt Sigurði Arnarsyni.

Í tilkynningu frá Skákfélagi Akureyrar segir að árangur Jóns Kristins hafi vakið mikla athygli, enda ekki á hverjum degi sem svo ungur skákmaður leggur tvo alþjóðlega meistara að velli og það sama daginn. Jón er þegar stigahæstur unglinga í sínum aldursflokki, en þar er félagi hans Símon einmitt næsthæstur. Því megi mikils vænta af piltunum í framtíðinni.

Nýjast