Stórfelld gjaldtaka verður mörgum útgerðum að aldurtila

Þröstur Jóhannsson útgerðarmaður í Hrísey segir að greinin virðist alls ekki mega skila hagnaði.
Þröstur Jóhannsson útgerðarmaður í Hrísey segir að greinin virðist alls ekki mega skila hagnaði.

„Ef frumvörpin verða að lögum veit ég ekki hvernig haustið verður hjá okkur, staðan er því vægast sagt óljós þessar vikurnar. Nú á til dæmis að taka algjörlega fyrir að færa aflamark úr stóra kerfinu yfir í krókaaflamarkskerfið, en við höfum farið þá leið nokkuð á undanförnum árum og í raun verið mikil forsenda fyrir því að hægt er gera héðan út á línu,” segir Þröstur Jóhannsson í Hrísey um frumvörp sjávarútvegsráðherra til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld. Þröstur gerir út línubátinn Sigga Gísla EA ásamt bróður sínum Jóhanni Pétri. Veiðirétturinn nemur  samtals um 150 þorskígildistonnum.  “Á veiðireynsluárunum sást engin ýsa hér þannig að þegar hún var kvótasett var kvótinn eftir því. Hér blossaði síðan upp ýsa á miðunum og þá var ekki um annað að ræða en að fá hana leigða út stóra kerfinu.  Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þessi réttur verði aflagður. Krókaaflamarks flotanum er heimilt að veiða um 15% árlega af ýsukvótanum, en með leigunni hefur hann veitt allt að fjórðung.  Við höfum skipt á veiðiréttindum og aukið þannig ýsuveiðar. Slík viðskipti hafa skapað mikið hagræði en ef taka á algjörlega fyrir slíkan sveigjanleika í kerfinu verður allt miklu þyngra í vöfum, það er ekki spurning,“ segir Þröstur.

Hófleg skattlagning sjálfsögð

„Okkar útgerð hefur fjárfest verulega í kvóta á undanförnum árum og tekið á sig skerðingar eins og aðrar úrgerðir. Stórfelld gjaldtaka verður örugglega mörgum fyrirtækjum að aldurtila, nái þessi frumvörp fram að ganga. Greinin virðist alls ekki mega skila hagnaði, ríkið hefur nú í hyggju að taka til sín of stóran bita af kökunni. Það verður að vera hægt að endurnýja tæki og tól með eðlilegum hætti. Hófleg skattlagning er auðvitað sjálfsögð og um það er ekki deilt.“

Skýrar leikreglur

„Almennt er ég fylgjandi sértækum byggðaaðgerðum. Þær leiðir sem nú eru boðaðar eru margar almennt orðaðar og færa stjórnmálamönnum mikið vald. Slíkt veit sjaldan á gott, leikreglurnar verða að vera skýrar og það versta er þegar hrært er í þeim fram og til baka með reglulegu millibili. Sjávarútvegur er undirstaða atvinnulífsins hérna í Hrísey. Aukin ríkisafskipti í greininni koma byggðinni örugglega ekki til góða. Við keyptum nýverið fiskvinnsluhús í Hrísey af Byggðastofnun og ætlunin er að skapa verðmæt störf. Framtíðinni má líkja við langtímaspá í veðrinu, allra veðra er von,“ segir Þröstur.

 

 

Nýjast