Grenivíkurgleðin verður haldin um helgina en fjörið hefst með tónleikum Stebba Jak og Gunnars Illuga á Kontórnum í kvöld. Reikna má með að líf og fjör verði á Grenivík fram í roða á sunnudag.
Aðaldagskráin fer fram á laugardag og hefst með barnaskemmtun, hoppukastalar verða á svæðinu og farið verður í leiki. Við Útgerðarminjasafnið verður boðið upp á lifandi tónlist og þar fer fram vígsla á nýju útilistaverki.
Grillveisla verður kl. 19 við íþróttahúsið og verður hún að gömlum og góðum sið þar sem þátttakendur mæta með eigin mat og skella á grillin sem verða þar til staðar en einnig er fólk hvatt til að taka eigin grill með.
Krakkagleði hefst kl. 19.30 þar sem Jónína Björt og Þórður taka öll uppáhaldskrakkalögin, en hópsöngur fyrir alla hefst kl. 21. Grenivíkurgleði lýkur svo með dansleik Húsabandsins sem heldur uppi stuðinu út í nóttina.