Danshátíðin í Hrísey fer fram í sjötta sinn næstkomandi helgi, 15.–16. ágúst. Þar kemur saman dansáhugafólk og skemmtir sér hið besta við undirleik þekktra hljómsveita. Greint er frá þessu á heimasíðu Akureyrarbæjar.
Hátíðin fer fram í gamla félagsheimilinu Sæborg. Hún hefst á föstudagskvöld kl. 20 með tónleikum þar sem Rúnar Þór fer yfir 40 ára útgáfuferil sinn. Kl. 21.30 hefst dansleikur með Stúlla og Tóta frá Siglufirði. Sturlaugur Kristjánsson, Stúlli, gerði garðinn frægan með hljómsveitinni Miðaldamönnum á árum áður og hefur lengi verið virkur í tónlistarlífi Siglufjarðar.
Á laugardag kl. 14 verður dansnámskeið undir stjórn Sólrúnar Bjarkar Valdimarsdóttur. Kl. 19.30 leika Einar Guðmundsson harmonikkuleikari og hljómsveit hans fyrir dansi, en síðan taka við Rúnar Þór og hljómsveitin TRAP og halda uppi fjörinu til miðnættis.
Forsprakki hátíðarinnar, Ingimar Ragnarsson, segir vinsældir hennar hafa aukist ár frá ári. Hugmyndin kviknaði 2019 þegar hann sá sjónvarpsþátt um danshátíð í Svíþjóð þar sem Danshljómsveit Friðjóns kom fram. Fyrsta hátíðin var haldin sama ár, en féll niður 2020 vegna COVID-19.
„Rúnar Þór hefur verið með frá upphafi og Friðjón komið þrisvar. Nú erum við með sölutjald við Sæborg með fjölbreyttum veitingum, auk þess sem spákona spáir fyrir fólki. Líklega er orðið erfitt að finna gistipláss í Hrísey þessa helgi, en þó má alltaf reyna,“ segir Ingimar.