Leiðir sem liggja víða

Brynja og Heiðrún - æskuminning um jólin
Brynja og Heiðrún - æskuminning um jólin

 -Heiðrún Jónsdóttir ólst upp á Húsavík og rifjar upp æskuárin með mikilli hlýju.

„Ég er trúlega ekki hlutlaus, en í minningunni var Húsavík best í heimi til að alast upp. Það er mikið frelsi í því að alast upp í bæ eins og Húsavík, en jafnframt mikið öryggi.“

Hún á enn margar góðar vinkonur á Húsavík. „Það er ómetanlegt að eiga æskuvinkonur sem þekkja alla manns kosti og galla og nenna enn að vera vinkonur mínar,“ segir hún og glottir.

Heiðrún rifjar upp góðar minningar úr Múla í Aðaldal hjá ömmu Heiðveigu og Afa Gesti. Þar bakaði hún drullukökur, rak kýr og tók þátt í sveitastörfum. „Heimilisfólkið nennti meira að segja að smakka drullukökurnar – sem var ótrúlegt,“ segir Heiðrún.

Hænur þóttu henni spennandi en jafnframt ógnvekjandi. „Ég sótti stundum egg en ég var í raun smá hrædd við þær.“ Smalamennska lá ekki sérlega vel fyrir henni og hún viðurkennir að hafa aldrei verið sérlega góð í að fara nákvæmlega eftir fyrirmælum.

Menntavegurinn og tímamótaferð til Berlínar

Eftir grunnskólagönguna á Húsavík lá leið Heiðrúnar í framhaldsnám; tvö ár á Bifröst og síðan tvö ár í Verzlunarskólanum. Að loknu stúdentsprófi bjó hún í einn vetur í Munchen. „Það er öllum hollt að búa erlendis – læra tungumál og aðlagast,“ segir hún.

Það sem stóð upp úr frá þessum árum var ferð sem Heiðrún og Bína, vinkona Heiðrúnar, fóru í til Berlínar í nóvember 1989. „Við fórum með næturlest frá Munchen til Berlínar, því þá voru fréttir um að Múrinn væri að falla. Þetta var vægast sagt eftirminnileg ferð og söguleg.“

Hún segist þó ekki hafa átta sig á hvað biði næst. „Það hvarflaði ekki að okkur okkur að í kjölfarið yrði Þýskaland sameinað og Sovétríkin myndu liðast í sundur. Evrópa var sannarlega breytt eftir þessi tímamót, en aftur stöndum við nú á krossgötum í Evrópu.“

Fyrstu starfsárin og Akureyri

Eftir að hafa lokið námi í Lagadeild í Háskóla Íslands 1995 flutti Heiðrún norður á Akureyri, dvöl sem átti upphaflega að vera til eins vetrar. „Hugmyndin var að vera þar í einn vetur, en árin urðu sex, því að á Akureyri er frábært samfélag.

Hún starfaði fyrstu þrjú árin á Lögfræðistofu Akureyrar. Þar starfaði hún með Ólafi Birgi Árnasyni hæstaréttarlögmanni og ber honum góða sögu. „Af honum lærði ég mikið og sakna hans enn í dag.“ Ásamt því kenndi hún einnig sjórétt við Stýrimannaskólann á Dalvík.

Heiðrún E. Jónsdóttir

Árið 1998 eignaðist hún son sinn, Jón Hallmar og eftir barnsburðarleyfi tók ferillinn óvænta stefnu. Hún réð sig til starfa hjá KEA, sem lögmaður og starfsmannastjóri. Eiríkur S. Jóhannsson réði hana og Ragnheiði Björk Guðmundsdóttur markaðsstjóra. „Við vorum víst fyrstu konurnar sem vorum í slíkum stöðum í því merka samvinnufélagi.“ Hún bætir við að Unnur Snorradóttir dagmamma hafi verið algjör stoð á þessum tíma. „Ég veit ekki hvað ég hefði gert án hennar, hún er með hjarta úr gulli.“

Tengslin við Norðurlandið

Þrátt fyrir að hafa flutt suður hafa tengslin við Akureyri alltaf verið til staðar. Fjölskyldan á hús í Sniðgötunni og dvelur þar reglulega. „Það er gott að vera á Akureyri,“ segir hún. Heiðrún segir einnig hafa glaðst þegar Jón Hallmar, sonur hennar, fór í Menntaskólann á Akureyri.

Hún sat í stjórn Norðlenska frá 2008 og var stjórnarformaður í níu ár. „Það var frábært að vinna með bændum og notalegt að koma reglulega á fundi norður.“ Einnig var hún stjórnarformaður Íslenskra verðbréfa um skeið.

Fjölbreytt störf og nýjar áskoranir

Ferill Heiðrúnar hefur verið fjölbreyttur og segist hún ekki enn búin að ákveða hvað hún ætli að verða þegar hún verður stór. Hún hefur unnið sem lögmaður, starfað innan fyrirtækja og setið í fjölda stjórna og kennt bæði í HÍ og HR. Árin 2017-2018 fór hún í AMP nám í Barcelona.

Hún hefur verið stjórnarformaður í Gildi, Íslenskum verðbréfum og Norðlenska, verið varaformaður í Olís og setið í stjórnum Ístaks, Þekkingar, Icelandair, RB, Arion verðbréfavörslu og Royal Artic Line í Grænlandi.

Nú situr hún í stjórn Heima, er varaformaður UMFÍ Stjörnunnar í Garðabæ og er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu. „Það er fjölbreytileikinn og vinna með ólíku fólki og að takast á við ólík viðfangsefni hverju sinni sem mér finnst skemmtilegast.“

Jólahefðir

Jólahefðir Heiðrúnar eiga uppruna sinn í æsku hennar á Húsavík. „Á æskuheimilinu var jólatréð skreytt á Þorláksmessu, alls ekki fyrr,“ segir hún og bætir við að móður sinni sé aðeins að förlast í þessu og nú sé skreytt fyrr með ári hverju.

Móðir hennar bakaði kökur fyrir jólin og var ætlast til að þær yrðu ekki borðaðar fyrr en á jólunum. „Hún sagði þó fátt þegar minnkaði í baukunum.“

Á Þorláksmessu fór fjölskyldan alltaf í KÞ og keypti sokkapar fyrir föður hennar. „Mamma fékk oftast eitthvað aðeins betra,“ segir hún brosandi. Sjálf fékk hún á hverju ári bók, suðusúkkulaði, heimaprjónaða sokka og vettlinga frá ömmu Heiðveigu. „Það eru þessir litlu hlutir sem gera jólin að því sem þau eru.“

 

Arnar Páll Matthíasson/APM

Greinarhöfundur er nemi á 2. ári í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri (HA). Þessi grein er hluti af lokaverkefni í áfanganum, samkvæmt samningi milli Vikublaðsins og HA.

Nýjast