Norðurþing, samstaða og jákvæðni skilar árangri

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings skrifar

 

Norðurþing stendur frammi fyrir margvíslegum áskorunum í atvinnulífinu um þessar mundir. Stærsta áskorunin er rekstrarstöðvun PCC á Bakka sem hefur nú raungerst og ekki liggur fyrir hve langan tíma hún mun vara. Fleira steðjar að og ljóst er að bíta þarf í skjaldarrendur.

Í sumar hefur farið mikil vinna í leit eftir góðum atvinnutækifærum fyrir iðnaðarsvæðið á Bakka. Uppbygging Húsavíkurhafnar og ganganna í aðdraganda uppbyggingar PCC kallar á aukin umsvif, innviðirnir eru sterkir, skipulagið er til staðar og framtíðarsýnin fyrir svæðið er skýr. Það er þétt og gott samtali í gangi við starfshóp fimm ráðuneyta sem var skipaður í vor og hefur það hlutverk að kortleggja stöðu atvinnumála á Húsavík og nágrenni vegna stöðu PCC á Bakka. Starfshópnum er einnig ætlað að koma með tillögur að mögulegum viðbrögðum stjórnvalda til bæði skemmri og lengri tíma með hliðsjón af ólíkum sviðsmyndum.

Nokkur atvinnuverkefni hafa verið til skoðunar og þau metin m.t.t. hugmyndafræði græns iðngarðs, hvaða innviði þau þurfa og hvaða affallsstrauma þau gefa frá sér sem geta nýst öðrum verkefnum. Einnig skiptir miklu máli að til verði fjölbreytt störf og stöðugleiki sem dregur úr áhrifum sveiflna á efnahag og gerir samfélagið betur í stakk búið til að takast á við breytingar. Slík breidd laðar að sér fólk með mismunandi hæfni, eykur nýsköpun og styrkir þjónustu við íbúa.

Á síðasta fundi byggðarráðs voru til umfjöllunar drög að viljayfirlýsingu við gagnaversfyrirtæki og var samþykkt að vinna drögin áfram og leggja fyrir sveitarstjórn á næsta fundi. Byggðarráð ítrekaði að iðnaðarsvæðið á Bakka er í einstakri stöðu til að sameina endurnýjanlega jarðvarmaorku með mikla rekstrarhagkvæmni í köldu loftslagi og endurvinnslu á varma. Gagnaver sem byggir á gervigreind hefur möguleika til að gagnast heimamönnum, atvinnulífinu og hagkerfinu í heild.

Það þarf að skapa tækifæri fyrir ungt fólk til að setjast að í Norðurþingi með sínar fjölskyldur og nýta sína menntun hér. Með því að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf byggjum við sterkara, sjálfbærara og lifandi samfélag til framtíðar.

Á tímum áskorana er samstaða og jákvæðni mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Jákvæðni þýðir ekki að loka augunum fyrir erfiðleikum, heldur að velja að sjá möguleika og lausnir. Þegar við tökum meðvitaða ákvörðun um að viðhalda jákvæðu hugarfari, jafnvel í mótlæti, sendum við skýr skilaboð: „Við tökumst á við þetta saman.“

Ég trúi því að framundan séu bjartir tímar fyrir sveitarfélagið okkar og ég hvet íbúa til að standa saman að uppbyggingu atvinnulífs í byggðarlaginu okkar.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings.

Nýjast