Heiðursdoktorinn frá Dalvík

Jóhanni Páli Árnasyni heiðursdoktorsnafnbót veitt  heiðursdoktorsnafnbót á sviði félagsvísinda við h…
Jóhanni Páli Árnasyni heiðursdoktorsnafnbót veitt heiðursdoktorsnafnbót á sviði félagsvísinda við hátíðlega athöfn.

Í enda júní veitti Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri Jóhanni Páli Árnasyni heiðursdoktorsnafnbót á sviði félagsvísinda við hátíðlega athöfn. Jóhann, sem fæddur er og uppalinn á Dalvík, hefur átt langan og merkan feril og fagnaði á dögunum 85 ára afmæli sínu.

Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1958 hélt hann til Prag og stundaði nám í heimspeki og sagnfræði við Karls-háskólann. Hann lauk síðan doktorsprófi í heimspeki frá Háskólanum í Frankfurt árið 1970 undir handleiðslu hins kunna félagsheimspekings Jürgen Habermas. Þá hófst ævintýri sem leiddi hann um Evrópu og til Ástralíu.

Jóhann kenndi fyrst við Heidelberg-háskóla og síðar Bielefeld-háskóla í Þýskalandi áður en hann tók við dósentsstöðu í félagsvísindum við La Trobe-háskólann í Melbourne árið 1975. Þar starfaði hann allt til ársins 2003, auk þess sem hann hefur gegnt fjölmörgum gestaprófessorsstöðum víða, meðal annars í Frakklandi, Svíþjóð og Þýskalandi. Frá 2007 til 2014 kenndi Jóhann við Karls-háskólann í Prag og þá hefur hann einnig kennt við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.

Frá vinstri: Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor, Markus Hermann Meckl, prófessor, Jóhann Páll Árnason og Guðmundur Ævar Oddsson,                                                                                                                                            prófessor. Markus og Guðmundur starfa báðir við Félagsvísindadeild háskólans.

Jóhann er ekki með eitt heldur tvö doktorspróf. Árið 1975 kláraði hann svokallað æðra þýskt doktorspróf, Habilitation, sem krefst flóknara og umfangsmeira ferlis en hefðbundið doktorspróf. „Í mínu tilviki samanstóð verkið af fjórum sjálfstæðum ritgerðum sem mynduðu bók,“ segir hann. Fyrir þetta hlaut hann titilinn dr. Habil.

Hann hefur alla tíð lagt áherslu á þverfagleg vinnubrögð og telur mikilvægt að heimspeki, félagsfræði og sagnfræði séu enn frekar samþætt en gert er í dag. „Æskileg væru nánari tengsl þessara þriggja fræðigreina, en viðtekin akademísk verkaskipting auðveldar það ekki,“ segir hann og bætir við að hann vilji sérstaklega sjá meiri grósku í sögulegri félagsfræði.

Af verkum sínum nefnir Jóhann helst bókina Civilizations in Dispute sem kom út árið 2003. „Því lengur sem unnið er, því áleitnara verður latneska spakmælið ars longa, vita brevis – listin er löng og lífið stutt. Æviverki verður aldrei lokið, svo stolti skal stilla í hóf. En ef ég nefni eitt verk, þá er það þessi bók.“

Hann telur tvö viðfangsefni sérstaklega verðskulda frekari rannsóknir: Samanburð á Evrópu og Austur-Asíu og ítarlegri greiningu á sögulegri arfleifð kommúnismans á 20. öld. „Um það síðarnefnda hefur verið mikið skrifað, en oftar en ekki höfðar það aðeins til sérfróðra lesenda. Þýðing þessarar sögulegu reynslu fyrir skilning á nútíma þjóðfélögum er þó gífurleg.“

Heiðursnafnbótin sem hann hlaut nú er honum kær. „Þetta var heiður og ánægja, ekki síst vegna þess að þetta er meiri viðurkenning á heimavelli en ég hef áður hlotið,“ segir hann.

„Jóhann er einhver allra fremsti fræðimaður Íslendinga fyrr og síðar á sviði hug- og félagsvísinda og þó víðar væri leitað. Eftir hann liggja fjölmargar bækur og greinar sem hverfast aðallega um kenningarlega og sögulega félagsfræði með áherslu á samanburð ólíkra menningarheima og þjóðfélagsbreytingar. Við erum mjög ánægð og stolt að Jóhann sé kominn í hóp heiðursdoktora háskólans og erum afar þakklát fyrir hans framlag til fræðaheimsins og Félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri.“ segir Guðmundur Oddsson, prófessor við Félagsvísindadeild.

Þótt fræðin hafi verið lífsstarf hans hafa önnur áhugamál átt hlut í hans lífi. Skák var lengi eitt þeirra en hann lagði hana á hilluna vegna tímaskorts. Hann hefur líka notið þess að fara í langar gönguferðir, þótt þeim hafi fækkað með árunum.

Jóhann lætur ekki af hendi penna þótt árin færist yfir. „Ég hef alltaf ný verkefni í huga. Það verður áfram nóg að hugsa um og skrifa.“

Loks er gaman að segja frá því að í síðasta mánuði var viðtalaröðin Þættir úr sögu nútímans frumflutt á Rás 1, þar sem Kristján Guðjónsson heimspekingur og dagskrárgerðarmaður og Guðmundur Oddsson ræða við Jóhann um æviferil hans, rannsóknir og stöðu heimsmála. Þættina má nálgast með því að smella hér.

Hlekkur á þætti: https://www.ruv.is/utvarp/spila/thaettir-ur-sogu-nutimans/38389/be49s1

Nýjast