Jóna - atkvæði og ambögur eftir Jón Ingvar Jónsson er komin út

Út er komin hjá Bókaútgáfunni Hólum bókin Jóna - atkvæði og ambögur eftir Jón Ingvar Jónsson í samantekt og ritstjórn Símonar Jóns Jóhannssonar.

Jón Ingvar var fæddur á Akureyri árið 1957 og ólst þar upp en lést langt fyrir aldur fram árið 2022. Hann var sonur Jóns Hafsteins Jónssonar stærðfræðikennara og Soffíu Guðmundsdóttur tónlistarkennara. Vorið 1977 lauk Jón Ingvar stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri en hélt þá til náms í Austur-Þýskalandi. Hann starfaði um skeið sem forritari en lengst af og sér í lagi hin síðari ár starfaði hann við helsta áhugamál sitt, leiðsögn ferðamanna.

Snemma fékk Jón Ingvar mikinn áhuga á bragfræði, náði strax á menntaskólaárunum góðum tökum á þeirri list og síðar varð hann einn af þekktustu og bestu hagyrðingum þjóðarinnar. Hann var einkar glöggur maður og fróðleiksþyrstur og kunnur fyrir skemmtilegheit, spaugsemi og galgopahátt. Hann lék sér alla tíð með orð, var hnyttinn og hafði gaman af að fara hárfínt yfir strikið. Vísur eftir hann birtust í ýmsum vísnaþáttum í blöðum og tímaritum og á vettvangi veraldarvefsins. Jón Ingvar kom víða við í vísnagerð sinni. Hann orti á einlægan hátt um fjölskyldu sína, fjallaði um land og þjóð, menn og málefni, stjórnmál, trúmál og íþróttir. Hann lét sér fátt óviðkomandi og alls staðar er stutt í dillandi húmor og galgopahátt.

Um sjálfan sig orti Jón:

Ég hef alveg afleit gen,

enda fól og glanni,

rætinn, þver og illgjarn en

annars gull af manni.

Fólk er nafn sem fær að vara
fáein ár og deyr.
Ég er sjálfur jafnvel bara
Jón og ekkert meir.

Síðar bætti hann svo við:

Jón er enn á röngu róli,

ranglátur og svikull drjóli,

á sitt fé í skattaskjóli,

skömm er að því ljóta fóli

þó að á hann hlaði hóli

hefðarkonur upp´ í bóli.

Það verður enginn svipinn af gáskafullum kveðskap Jóns Ingvars sem margir fagna að nú sé loksins kominn á bók.

Nýjast