Þremur sýningum lýkur á sunnudag

Með því að nota liti, mynstur og áferð sem ráðandi afl í samhengi við þrívíðu formin, ögrar Emilie P…
Með því að nota liti, mynstur og áferð sem ráðandi afl í samhengi við þrívíðu formin, ögrar Emilie Palle Holm hefðbundnum hugmyndum um textíl. Mynd/Aðsend.

Framundan eru síðustu dagar sýninga Emilie Palle Holm, Brotinn vefur, og Helgu Páleyjar Friðþjófsdóttur, Í fullri fjöru, auk fræðslusýningarinnar Margskonar I. Sýningunum lýkur öllum næstkomandi sunnudag.

Emilie Palle Holm er með MA gráðu í textíl frá Háskólanum í Borås. Hún hefur unnið til fjölda viðurkenninga og verðlauna, þar á meðal hinna eftirsóttu Arts Threads í flokknum prjón/vefur 2023, sem skipulögð voru í samvinnu við tískumerkið Gucci. Einnig verðlaun menningarmálaráðuneytis á Evrópsku verðlaunahátíðinni í Belgíu 2024, fyrir nytjalist.

Með því að nota liti, mynstur og áferð sem ráðandi afl í samhengi við þrívíðu formin, ögrar listakonan hefðbundnum hugmyndum um textíl sem einkennist af sjónrænu, stöðnuðu efni. Ofin formin bjóða upp á gáskafulla og örvandi upplifun í stafrænum heimi, þar sem verkkunnáttan er greinileg.

Helga Páley Friðþjófsdóttir lauk BA-prófi frá Listaháskóla Íslands 2011 og er starfandi myndlistarmaður í Reykjavík. Eftir útskrift hefur hún haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hérlendis og erlendis. Verk hennar eru í eigu listasafna og einkaaðila víðs vegar í Evrópu.

Teikningin hefur lengi verið Helgu Páleyju hugleikin og skipað stóran sess í hennar listsköpun. Með teikningunni fálmar hún sig áfram með forvitnina að vopni og kortleggur sinn hugarheim. Hún gefur honum tíma til að gerjast, þangað til hlutirnir verða skýrari og sögur fæðast, sem færast með ýmsum leiðum yfir á strigann.


Markmið fræðslusýningarinnar Margkonar I er að fræða safngesti um ólíka miðla myndlistar út frá völdum verkum úr safneign Listasafnsins á Akureyri. Verkin eru fjölbreytt, eftir ólíka listamenn og unnin með margskonar aðferðum. Safngestir fá jafnframt tækifæri til að setja mark sitt á sýninguna, sækja sér innblástur í verkin og skapa sína eigin list í hvetjandi umhverfi.

Hvernig fæðist hugmynd að listaverki? Listamenn nota margskonar aðferðir til að miðla og tjá hugmyndir sínar. Í myndlist merkir orðið miðill þá leið eða aðferð sem listamaður hefur valið til að vinna verk sín í. Til eru fjölbreyttar miðlunaraðferðir og skilin á milli þeirra geta verið óljós. Sumir listamenn nota miðla sem löng hefð er fyrir á meðan aðrir gera tilraunir með ólík efni og tækni til þess að ná fram þeim áhrifum sem verið er að sækjast eftir.

 

Nýjast