Ný Miðgarðakirkja vígð í Grímsey

Kór Möðruvallaklausturskirkju söng við athöfnina undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur. Myndir…
Kór Möðruvallaklausturskirkju söng við athöfnina undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur. Myndir/Anna María Sigvaldadóttir.

„Þetta var dásamlegur dagur og mikil gleði yfir að ná því nú síðsumars að vígja kirkjuna,“ segir Alfreð Garðarsson formaður sóknarnefndar Miðgarðasóknar í Grímsey, en ný Miðgarðakirkja var vígð síðastliðinn sunnudag að viðstöddu fjölmenni. Ekki komust allir fyrir í sjálfri kirkjunni og var athöfninni streymt yfir í félagsheimilið Múla þar sem fólki var einnig komið fyrir.

Miðgarðakirkja í Grímsey brann til kaldra kola í september árið 2021. „Við gátum ekki hugsað okkur að vera kirkjulaus hér í eynni þannig að segja má að fljótlega eftir þetta mikla áfall fórum við að huga að því að reisa nýja kirkju,“ segir Alfreð.

Mikill velvilji

Hrint var af stað söfnun og segir hann að strax hafi komið í ljós mikill velvilji landsmanna í garð Grímseyinga því söfnun gekk vonum framar. Fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar lögðu málefninu lið og þá segir Alfreð að áheit á Miðgarðakirkju hafi aukist til mikilla muna og talsverðir fjármunir komi inn sem áheit. Það hæsta hingað til tvær milljónir króna. „Þetta kom okkur á óvart,“ segir hann.

Framkvæmdir hófst í byrjun árs 2023 og gengu vel allt fram í desember þegar peningarnir kláruðust. „Við vildum ekki taka mikil lán og steypa okkur í skuldir, þannig að ákveðið var að stöðva framkvæmdir og leita leiða til að fjármagna það sem upp á vantaði,“ segir Alfreð. Ríkið lagði fram 47 milljónir króna og var með því framlagi hægt að ljúka byggingaframkvæmdum.

Ómetalegt

Kostnaðaráætlun var upp á 103 milljónir þegar lagt var af stað með framkvæmdir en nú þegar kirkjan hefur verið vígð nemur kostnaður um 186 milljónum króna. Alfreð segir ýmis smá verkefni eftir, m.a. að leggja parket á kórloftið en það verður gert innan tíðar. Eins á eftir að leggja flísar á kirkjugólfið og stefnt að því á komandi vetri.

„Við erum óskaplega þakkát fyrir þann stuðning sem við höfum fengið hjá landsmönnum, það er ómetanlegt að finna þennan mikla velvilja hjá þjóðinni, eiginlega bara alveg ótrúlegt að upplifa hann,“ segir Alfreð.

Breiðari og hærra til lofts

Nýja Miðgarðakirkjan er álíka löng og sú eldri en mun breiðari og hærra er til lofts þannig að hún virkar mun stærri. Þá segir hann að ákveðið hafi verið að hafa stóla í nýju kirkjunni í stað bekkja áður og með því móti sé hægt að hagræða og raða upp á ólíkan máta. Alls komast 60 mann fyrir í sætum í kirkjunni og 30 á kórlofti. „Ég hugsa að við gætum komið um 100 manns fyrir í kirkjunni með því að koma fyrir léttum klappstólum hér og hvar, en þá er alveg stappað.“

Hátíðleg athöfn

Guðrún Karls Helgudóttir biskup Íslands vígði kirkjuna. Við sama tækifæri voru tvær nýjar kirkjuklukkur, gjöf frá Hallgrímssöfnuði í Reykjavík helgaðar. Klukk­urn­ar voru steypt­ar hjá Royal Eijs­bouts í Hollandi, sömu kon­ung­legu klukku­steyp­unni og steypti klukk­ur Hall­gríms­kirkju, og hljóma í tón­un­um Dís³ og F³. Gjöf­in er tákn­ræn end­ur­greiðsla fyr­ir klukku sem Gríms­ey­ing­ar gáfu Hall­gríms­kirkju árið 1971. Söfn­un fyr­ir nýju klukk­un­um fór fram í mess­um og á tón­leik­um með þátt­töku norðlenskra tón­list­ar­manna og heima­manna. Á klukk­urn­ar eru einnig letruð ár­töl­in 1779 og 1852 til minn­ing­ar um eldri klukk­ur, 2021 í minn­ingu brun­ans og 2023, steypu­ár klukkn­anna.

Oddur Bjarni Þorkelsson sóknarprestur Miðgarðasóknar þjónaði með biskupi auk fyrrum sóknarpresta, Pálma Mattíassonar, Magnúsar G. Gunnarsson og Svavars Alfreðs Jónssonar en núverandi og fyrrverandi vígslubiskupar á Hólum komu einnig við sögu auk fleiri. Kór Möðruvallaklausturskirkju söng við athöfnina undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur.

Nýjast