„Stóra viðurkenningin er að sjá gleði í augum barnanna“

Sigrún Stefánsdóttir og Dana Rán Jónsdóttir hjá Vísindaskóla unga fólksins.  Myndir Rannis
Sigrún Stefánsdóttir og Dana Rán Jónsdóttir hjá Vísindaskóla unga fólksins. Myndir Rannis

Viðtal við Sigrúnu Stefánsdóttur og Dönu Rán Jónsdóttur um Vísindaskóla unga fólksins, sem hlaut viðurkenningu Rannís fyrir Vísindamiðlun ársins 2025. Vísindaskóli unga fólksins er rekinn af Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri.

Þann 27. september síðastliðinn var mikil gleðistund þegar Vísindaskóli unga fólksins við Háskólann á Akureyri hlaut viðurkenningu Rannís fyrir Vísindamiðlun ársins. Viðurkenningin er veitt verkefnum sem hafa verið framúrskarandi í að kynna vísindi fyrir almenningi – og í þessu tilviki fyrir ungu fólki. Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor HA, og Dana Rán Jónsdóttir sérfræðingur hjá RHA tóku við viðurkenningunni.

En hvað liggur að baki þessum skóla, sem hefur nú tekið á móti nærri 900 ungmennum á rúmum áratug? Tvær konur standa sérstaklega að baki verkefninu í dag, en það eru Sigrún Stefánsdóttir, upphafsmanneskja Vísindaskólans, fyrrverandi forseti Hug- og félagsvísindasviðs og stundakennari við HA, og Dana Rán. Þær segja frá því hvernig hugmyndin varð að veruleika, hvernig skólinn hefur þróast – og hvað viðurkenningin frá Rannís þýðir fyrir skólann og þær persónulega.

Hugmynd sem spratt af aðstöðumun barna

Það var reynsla úr eigin fjölskyldu sem kveikti neistann hjá Sigrúnu. Hún rifjar upp að hafa fyrst heyrt af Háskóla unga fólksins hjá Háskóla Íslands fyrir um tuttugu árum. Hún vildi að barnabörn sín á Akureyri gætu tekið þátt en fljótt kom í ljós að aðstöðumunurinn var mikill milli barna á höfuðborgarsvæðinu og þeirra á landsbyggðinni.

„Önnur ömmustelpan mín var spennt en hin ekki – henni fannst yfirþyrmandi að fara suður í rúma viku. Þarna sá ég svart á hvítu að ekki voru öll börn með sömu tækifæri,“ segir hún.

Nokkrum árum síðar, þegar Sigrún tók við sem forseti Hug- og félagsvísindasviðs HA, fann hún brennandi þörf fyrir að gera eitthvað í málinu. „Ég talaði við rektor sem sagði bara: Farðu og gerðu þetta. Fáðu fólk með þér sem hefur áhuga. Þannig byrjaði ballið,“ segir hún hlæjandi.

Skóli sem byggir á gleði og virkri þátttöku

Vísindaskólinn tók í fyrsta sinn á móti nemendum árið 2015. Ákveðið var að nálgast hann með öðrum hætti en skólann í Reykjavík. Í stað þess að bjóða upp á stök námskeið sem börn þyrftu að keppa um var ákveðið að hafa heila þemadaga, þar sem öll sitja við sama borð.

„Við höfum frá upphafi lagt áherslu á að nemendur taki virkan þátt, að virðing sé borin fyrir einstaklingnum og að gleðin ráði ríkjum,“ segir Sigrún.

Dana, sem hefur stýrt skólanum síðustu ár, bætir við að fjölbreytnin skipti öllu máli:

„Það er svo mikilvægt að bjóða börnum annað en bara íþróttastarf á sumrin. Ég var sjálf aldrei mikið fyrir íþróttir og hefði óskað að hafa haft svona skóla þegar ég var á þessum aldri.“

Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor Háskólans á Akureyri, og Dana Rán Jónsdóttir, verkefnastjóri Vísindaskóla unga fólksins, við viðurkenningunni. Með þeim á myndinni eru Vigdís V. Mäntylä, Sigríður Valgeirsdóttir, fulltrúi ráðuneytis menningar, nýsköpunar- og háskóla, sem afhenti viðurkenninguna, og Ágúst Hjörtur Ingþórsson.

Metnaður og viðurkenning

Það þarf ekki að spyrja að metnaðinum sem lagður er í verkefnið. Í eina viku á hverju sumri opnast heimur vísinda fyrir 11–13 ára börnum, þar sem þau fá að kynnast rannsóknum og fræðasviðum Háskólans á Akureyri. Skólinn er starfræktur í nánu samstarfi við fyrirtæki á svæðinu, og í lok vikunnar er haldin hátíðleg útskrift þar sem rektor HA og heiðursgestur taka þátt. Í ár var það engin önnur en forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, sem var heiðursgestur útskriftarinnar.

Aðspurðar hvað viðurkenningin frá Rannís þýði, nefnir Sigrún að þetta sé meðal annars góð kynning á Vísindaskólanum og bætir við: „Mér finnst oft gleymast að það er líf og áhugavert starf utan höfuðborgarinnar. Þessi viðurkenning er mikilvæg fyrir okkur báðar, fyrir háskólann og fyrir Norðurland,“ segir Sigrún.

Dana tekur undir með Sigrúnu: „Við setjum allan okkar metnað í Vísindaskólann. Að fá þessa viðurkenningu er ekki bara staðfesting á því að fólk sé ánægt með starfið, heldur líka hvatning fyrir okkur að halda áfram.“

Framtíðin er björt – og nóg að gera

Þótt Vísindaskólinn standi aðeins yfir eina viku á ári er undirbúningurinn viðvarandi. Dana og Sigrún eru nú þegar farnar að skipuleggja námskeið næsta sumars.

„Við erum með langan lista af hugmyndum að verkefnum fyrir 2026,“ segir Sigrún. „Ég hef tröllatrú á gildum Vísindaskólans og tel að hann opni augu barna og forráðamanna þeirra fyrir mikilvægi menntunar og vísinda.“

Dana bætir við með brosi: „Það er alltaf nóg framundan – bæði hjá RHA og í Vísindaskólanum. Við erum nú þegar að sjóða saman fimm ný og spennandi námskeið.“

Þegar allt kemur til alls er það ekki viðurkenningin frá Rannís sem vegur þyngst í hjarta Sigrúnar: „Stóra viðurkenningin er í raun alltaf sú sama, að sjá gleði í augum barnanna á útskriftardaginn, þegar þau kveðja með bros á vör og vilja endilega koma aftur að ári.“

Þannig heldur saga Vísindaskóla unga fólksins áfram – sem lifandi dæmi um hvernig hugmynd, sem spratt af þörf fyrir jöfnuð og tækifæri, hefur þróast í metnaðarfullt verkefni sem færir vísindi nær næstu kynslóð.

Nýjast