„Stóra markmiðið að auka fæðuöryggi“

Haukur segir að það sé mikill hagur fyrir bændur að rækta sitt eigið korn. Mynd: Aðsend/Haukur Marte…
Haukur segir að það sé mikill hagur fyrir bændur að rækta sitt eigið korn. Mynd: Aðsend/Haukur Marteinsson.

Bændur á fimm bæjum í Útkinn og Aðaldal í Þingeyjasýslu hafa tekið höndum saman í kornrækt. Nýverið stóðu þeir í stórræðum og plægðu um 60 hektara akur en kornið er þurrkað í kornþurrkstöð sem reis á Húsavík á síðasta ári. Haukur Marteinsson kúabóndi á Kvíabóli segir að gott vor lofi góðu fyrir framhaldið.

„Við erum að endurtaka leikinn frá því í fyrra en bættum við okkur einhverjum 20 hekturum. Þetta er allt saman land sem var brotið undir grasköggla framleiðslu á sjöunda áratug síðustu aldar,“ segir Haukur í samtali við Vikublaðið og bætir við að kornræktin auki á sjálfbærni innan greinarinnar og dragi bæði úr fóðurkostnaði og losun gróðurhúsalofttegunda.

Snemma á ferðinni í ár

Það þurfti stórvirkar vinnuvélar til að plægja 60 hektara kornakur.

Haukur segir jafnframt að bændur séu mun fyrr á ferðinni en á síðasta ári með sáningu en í fyrra voru bændur í Þingeyjasýslu að sá fram í lok maí. Nú hafi sáningu verið lokið á síðustu dögum aprílmánaðar.

„Það munar mikið um þetta góða vor svo hægt sé að gera þetta af einhverju viti af því að það er ekki frost í jörðu. Þessar dagsetningar núna eru hagstæðar svo það stefnir bara í að við fáum góða uppskeru í vor,“ segir Haukur og bætir við að sáningu sé lokið.

Kornið þurrkað á Húsavík

Á síðasta ári reis kornþurrkstöð við Víðimóa á Húsavík sem getur afkastað allt að 1000 tonnum af byggi á hausti. Verkefninu var ýtt úr vör af Búnaðarsambandi Suður-Þingeyinga (BSÞ) í samstarfi við Fjárfestingafélag Þingeyinga. Í framtíðinni er síðan stefnt á að byggja upp frekari vinnslu, meðal annars á graskögglum.

„Eins og staðan er núna þá er ekki frekari vinnsla þar, þetta er einföld þurrkstöð til að þurrka bygg fyrir bændur og geymt í sílóum. Framtíðarhugsunin er að byggja hús og koma upp vinnslu þarna. Þá myndum við fara að mala, blanda og búa til heildstæðara fóður. Við notum þetta til að minnka innflutning á fóðri fyrir dýrin okkar, minnka kolefnisspor og auka tekjur fyrir bændur,“ útskýrir Haukur og bætir við að búin sem standa á bak við kornræktina séu fyrst og fremst kúabú og blönduð bú.

Aukin sjálfbærni

„Það eru í grunnin kúabændur sem standa að þessu. Það er svo mikill hagur í því að lækka fóðurkostnað í þessum rekstri, bæði fyrir mjólkurkýrnar og nautaeldið,“ segir Haukur og bendir á að tvö markmið liggi undir í ræktuninni.

„Númer eitt er að lækka kostnað á fóðri en númer tvö að búa okkur til sjálbærni, nýta íslenska jörð og auka fæðuöryggi. Það er stóra markmiðið.“

Verðlaunað fyrirmyndarbú

Haukur ásamt Ingiríði eiginkonu sinni þegar þau tóku við verðlaunum fyrir Fyrirmyndarbú nautgripabænda. Mynd/bóndi.is.

Bændurnir á Kvíabóli, Haukur og eiginkona hans Ingiríður Hauksdóttir tóku fyrr á þessu ári á móti verðlaunum sem Fyrirmyndarbú Nautgripabænda BÍ.

Kvíaból er í Kaldakinn en það var stofnað á sjötta áratug síðustu aldar sem nýbýli út úr landi Garðshorns af hjónunum Helgu Hauksdóttur frá Garðshorni og Sigurði Marteinssyni frá Hálsi í sömu sveit. Við búi af þeim tók Marteinn sonur þeirra og kona hans Kristín Björg Bragadóttir og eiga þau stóran þátt í uppbyggingu búsins. Í dag standa fyrir búi Haukur Marteinsson og kona hans Ingiríður Hauksdóttir. Þau eru með um 60 mjólkurkýr og 170 nautkálfa í kjötframleiðslu.

Bjartsýnir bændur

Haukur segir landslagið í rekstrinum gott þó að enginn skortur sé á áskorunum hjá bændum í dag. „Afurðaverðið er að hækka en svo er auðvitað stríð út í heimi sem hefur áhrif þegar við erum komin í frumframleiðslu á matvælum. En það gengur ágætlega þrátt fyrir allt,“ segir hann.

Haukur nefnir umræðuna um að hækkun á raforkuverði sé að sliga garðyrkjubændur og segir að höggið sem þeir hafa orðið fyrir megi líkja við það högg sem kúa og sauðfjárbændur urðu fyrir þegar stríðið í Úkraínu hófst.

„Við finnum alveg fyrir hækkun á raforkuverði en það er miklu minni liður í okkar rekstrarkostnaði en eins og garðyrkjubændur hafa verið að finna fyrir núna með 25% hækkun á raforku er kannski svipað högg og við kúa og sauðfjárbændur fengum fyrir nokkrum árum þegar stríðið í Úkraínu byrjaði og áburður hækkaði um 89% á einu bretti. En við bændur horfum björtum augum til framtíðar,“ segir Haukur að lokum.

Nýjast