Verkið "Fúlar á móti" er byggt á gamanþáttunum, "Grumpy Old Women" og er skrifað af Jenny Eclair og Judith Holder. Leikstjóri er María Sigurðardóttir leikhússtjóri LA en með hlutverkin í sýninginni fara þær Edda Björgvinsdóttir, Helga Braga Jónsdóttir og Björk Jakobsdóttir. Þær stöllur hafa farið hreinlega á kostum á forsýningum í vikunni og mega væntalegir leikhúsgestir eiga von á skemmtilegri sýningu. Gríðarleg eftirspurn er eftir miðum, þegar er orðið uppselt á 17 fyrstu sýningarnar og er byrjað að bæta inn aukasýningum. Það er heldur ekki á hverjum degi sem sem fólki gefst kostur á að sjá þrjár af bestu uppistands- og gamanleikkonum landsins saman í leiksýningu.
Helgi Þórsson sagðist hafa skrifað grunninn að Vínlandi fyrir um tveimur árum en hann lauk við að fínpússa það fljótlega eftir að Freyvangsleikfélagið fór að sýna því áhuga. Söngleikurinn byggir á Grænlendingasögu og Eiríkssögu rauða og á fornri íslenskri arfleið þar sem við sögu koma víkingar, þrælar, skrælingjar og valkyrjur. "Það er léttur andi fyrir verkinu og það er saga í því. Það tekst að ná tilfinningu í þetta og svolítilli dýpt og ég hef verið að gantast með að í verkinu hafi Íslendingasögurnar verið færðar í Walt Disney búning," segir Helgi. Leikstjóri Vínlands er Ólafur Jens Sigurðsson en alls koma 50-60 manns að uppfærslunni, þar af 24 leikarar. Mikill áhugi er fyrir þessari sýningu í Eyjafjarðarsveit og nágrannabyggðum og bíða margir spenntir eftir því að sjá sýninguna. Áætlað er að sýna á föstudögum og laugardögum næstu vikurnar.