Stofnfjáreigendur samþykktu sameiningu

Stofnfjáreigendur í Sparisjóði Norðlendinga samþykktu á fundi á Akureyri fyrr í dag, fyrirhugaða sameiningu við Byr sparisjóð en áður höfðu stjórnir sparisjóðanna skrifað undir áætlun um samruna þeirra sem miðast við 1. júlí sl. Einnig samþykktu stofnfjáreigendur Sparisjóðs Norðlendinga að auka stofnfé í sjóðnum um tæpar 235 milljónir króna, sem þarf til þess að hlutur stofnfjáreigenda í Sparisjóði Norðlendinga verði 9,5% í sameinuðum sjóði. Hlutur stofnfjáreigenda í Byr sparisjóði verður 90,5% í sameinuðum sjóði. Markmiðið með samrunanum er að styrkja stöðu sparisjóðanna í harðnandi samkeppni á fjármálamarkaði til hagsbóta fyrir viðskiptavini, starfsfólk og stofnfjáreigendur. Sparisjóður Norðlendinga var stofnaður 30. júní 1997 með samruna Sparisjóðs Akureyrar og Arnarneshrepps og Sparisjóðs Glæsibæjarhrepps.

Nýjast