„Það verður heilmikið stuð á tónleikunum. Sigga hefur lofað því að láta gamminn geysa og hún gengur ekki á bak orða sinna,“ segir Grétar Örvarsson en hljómsveitin Stjórnin verður á ferðinni í Hofi á Akureyri um aðra helgi, laugardagskvöldið 4. október kl. 21. „Við byrjum ekki fyrr en klukkan níu til að gefa fólki kost á að gera meira úr kvöldinu með því að fara út að borða kjósi það að hafa þann háttinn á.“
Grétar segir að nú í ár séu 35 ár liðin frá því hið sívinsæla Eitt lag enn kom út, „og við erum öðrum þræði að halda upp á þau tímamót,“ segir hann. Lagið hafi lifað með þjóðinni öll þessi ár og eigi það fyllilega skilið að vera gert hátt undir höfði.
Stjórnin 1990
Stjórnin var stofnuð í apríl árið 1988 og þá söng Alda Ólafsdóttir með hljómsveitinni. Hún flutti til London nokkrum mánuðum síðar og þá hoppaði Sigríður Beinteinsdóttir á vagninn og hefur verið þar síðan. Auk Grétars og Siggu eru innanborðs Akureyringurinn góðkunni, Sigfús Óttarsson sem hefur trommað með sveitinni frá árinu 1996.. Eiður Arnarsson úr Vestmannaeyjum spilar á bassa, Friðrik Karlsson gítarleikarinn ástsæli verður með í Hofi og hinn bandaríski Phil Doyle leikur á saxafón. Sá hefur lengi búið á Íslandi, en fyrstu tvö árin bjó hann á Akureyri og kenndi við Tónlistarskóla Akureyrar. Aukahljómborðsleikari er Ingvar Alfreðsson og þær Alma Rut og Rakel Pálsdóttir sjá um bakraddir.
Mikið fjör framundan
Grétar segir að Stjórnin hafi öll sín ár komið reglulega til Akureyrar, voru tíðir gestir í Sjallanum þar sem ævinlega var mikið stuð. Hin síðari ár hefur Stjórnin meira verið í að spila á Græna hattinum auk þess sem hún fékk tækifæri til að koma fram með SinfoniaNord í Hofi í fyrra. „Það var mjög hátíðlegt, virkilega gaman og heilmikið lagt í þá tónleika,“ segir Grétar og bætir við að tónleikarnir um aðra helgi verði sennilega ekki jafn settlegir. „Það verður annars konar yfirbragð, flott sýning enda mikil og góð tæki fyrir hendi í húsinu til að setja upp glæsilegar sýningar,“ segir hann. „Sigga hefur lofað miklu fjöri og það stenst henni enginn snúning þegar að því kemur. Gestir eiga því von á góðri kvöldstund.“
Sigga og Grétar
Páll Rósinkranz söngvari Jet Black Joe sérstakur gestur
Sérstakur gestur tónleikanna verður Páll Rósinkranz sem stígur á stokk með Stjórninni og segir Grétar mikla tilhlökkun ríkjandi vegna þess. Hljómsveitin Jet Black Joe var stofnuð árið 1991, fáum árum á eftir Stjórninni. „Þegar þeir voru að stíga sín fyrstu skref hituðu þeir nokkrum sinnum upp fyrir okkur. Ég man að eitt sinn voru þeir með í för norður og spiluðu með Stjórninni í Sjallanum. Það var virkilega gaman. Jet Black Joe hefur átt farsælan feril og mörg laganna náð miklum vinsældum. Páll mun án efa taka nokkur þeirra, enda aðdáendahópurinn stór fyrir norðan .
Páll Rósinkranz verður sérstakur gestur tónleikanna