Stéttarfélagið Framsýn leggst alfarið gegn hugmyndafræði SALEK hópsins eins og hún hefur verið lögð fram þar sem hún stenst ekki lög um stéttarfélög og vinnudeilur. Þetta segir formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, í grein sem hann skrifar á vef stéttarfélagsins. Aðalsteinn gerði alvarlegar athugasemdir við samkomulagið á formannafundi Alþýðusambands Íslands sem haldinn var 28. október þar sem málið var tekið til umræðu og afgreiðslu á fámennum fundi. Fjögur stéttarfélög auk Framsýnar lögðust gegn samkomulaginu.
„Það er alveg ljóst, reyndar óumdeilanlegt að samkomulagið brýtur gegn ákvæðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur frá árinu 1938 nr. 80,“ segir Aðalsteinn. „Samkomulagið getur ekki bundið samtök launafólks ákveðnum hlekkjum sem byggja á því að búið sé að ákveða hverjar launabreytingar megi vera í frjálsum samningum burtséð frá getu atvinnulífsins til að greiða hærri laun eða krafna viðkomandi stéttarfélaga á hverjum tíma s.s. varðandi séraðgerðir vegna hækkunar lægstu launa.“
„Framsýn tekur heilshugar undir ákvörðun Verkalýðsfélags Akraness að stefna öllum aðilum SALEK samkomulagsins fyrir Félagsdóm. Dómnum er ekki annað fært en að dæma samkomulagið ógilt þar sem samkomulagið er skerðing á samningsrétti og frelsi stéttarfélaga til að gera kjarasamninga á sínum forsendum. Þá getur SALEK hópurinn ekki undir neinum kringumstæðum bundið aðila sem standa utan rammasamkomulagsins við ákvæði samkomulagsins. Slík framsetning gengur einfaldlega ekki upp,“ skrifar Aðalsteinn en lesa má pistil hans í heild sinni hér.
Þau stéttarfélög sem greiddu atkvæði gegn SALEK samkomulaginu á formannafundi ASÍ voruFramsýn, stéttarfélag, Þingiðn, félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur og Vélstjóra- og sjómannafélag Grindavíkur.