Stelpur rokka! koma norður annað árið í röð og halda rokksumarbúðir fyrir 12 til 16 ára stelpur vikuna 7. til 11. júlí á Akureyri. Í rokksumarbúðunum læra stelpur á hljóðfæri, spila í hljómsveit, taka þátt í skemmtilegum vinnusmiðjum og leikjum, fá tónleikaheimsóknir frá farsælum íslenskum tónlistarkonum og spila frumsamið lag fyrir framan fullan sal vina og fjölskyldu. Búðirnar munu verða frá kl. 10 til 17 um daginn og verða haldnar í
Rósenborg í samvinnu við norðlenskar tónlistarkonur. Viðmiðunarþátttökugjald er 17.500 krónur en engri stúlku verður vísað frá sökum fjárskorts. Skráning fer fram á www.stelpurrokka.org. Engin hljóðfærakunnátta er nauðsynleg.
Stelpur rokka! eru sjálfboðaliðarekin samtök sem starfa ekki í hagnaðarskyni. Markmiðið er að efla og styrkja ungar stúlkur í tónlistarsköpun. Rokkbúðirnar eru skapandi umhverfi þar sem stelpurnar láta hæfileika sína skína og rödd heyrast.