„Það er örlítil aukning þegar horft er til komandi sumars, en svo er lítið sem ekki neitt að gerast þegar kemur inn á haustið. Frá september til áramóta er bara varla hreyfing,“ segir Steingrímur Birgisson forstjóri Hölds Bílaleigu Akureyrar. Hann bætir við að ef allt fer á versta veg varðandi upptöku kílómetra gjalds í sumar megi gera ráð fyrir gríðarmiklu tjóni hjá bílaleigum, sem í tilviki Bílaleigu Akureyrar nemur hundruðum milljóna.
Steingrímur segir að árið 2024 hafi ekki verið gott í rekstri félagsins og minni umsvif en voru árin á undan. Því sé jákvætt að útlit sé fyrir á bilinu 2 til 4% aukningu á komandi sumri miðað við bókanir nú í byrjun maí. „Mér sýnist að þetta verði ögn skárra en það er mikil óvissa í heiminum og við finnum verulega fyrir því,“ segir hann. Þó svo að sumarið verði eitthvað betra þá blasir við að haustið verður erfitt. „Það er bara ekki neitt í gangi þegar kemur fram í september og ef svo fer sem horfið og sú sviðsmynd sem við okkur blasir raungerist þá erum við að horfa upp á samdrátt upp á tugi prósenta þar.“ Sem betur fer er þó enn langt til haustsins og vonandi rætist úr og tilhneygingin þessa dagana er að fólk er að bóka frekar seint og halda að sér höndum á þessum óvissutímum en stekkur svo af stað.
Kílómetragjald getur aukið útgjöld umtalsvert
Kílómetragjald verður tekið upp að óbreyttu 1. júlí næstkomandi og segir Steingrímur að því hafi verið skellt á svo til fyrirvaralaust og án mikils samráðs við t.d. bílaleigur. „Kílómetragjaldið mun hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir okkar rekstur. Sökum þess hve seint það kemur fram getum við ekki velt því út í verðlagið og sitjum sjálf uppi með að greiða það í þeim tilvikum þar sem viðskiptavinir hafa bókað og greitt fyrir sinn bíl. Að auki berum við í raun allan innheimtukostnað af því sem nemur tugum milljóna. Kílómetragjaldið er ekki nýtt gjald, heldur er ríkið að breyta fyrirkomulagi á innheimtu eldsneytisgjald, þannig að ríkið er ekki að tapa neinum peningum ef þessu verður frestað en þessi breyting og hvað hún kemur fyrirvaralaust inn setur svakalegt strik í okkar reikning. Okkar útgjöld geta hækkað um hundruði milljóna króna og þess vegna farið upp í milljarð,“ segir hann. „Ef allt fer á versta veg verður þetta hrein og klára skelfing.“
Óvissa ríkjandi
Steingrímur segir að almennt sé óvissa ríkjandi í heiminum sem hafi í för með sér að fólk heldur að sér höndum og bíður með að skipuleggja ferðalög. Fólki ætli sér að sjá hver þróunin verði áður en farið sé af stað. „Það er minna um bókanir núna og ekki bara frá bandarískum ferðalöngum. Það er óvissa í gangi líka í Þýskalandi sem dæmi, margt í gangi sem dregur úr ferðavilja og enn er Úkraínustríðið að hafa áhrif.“ Ég ætla samt að leyfa mér að vera bjartsýnn á árið í heild og að það rætist úr haustinu sem og að teknar verði skynsamlegar ákvarðanir með kílómetragjaldið og innleiðingu þess frestað og rætt betur við okkur um málið.
Stærsti einstaki samningurinn um bílakaup
Steingrímur segir að Höldur-Bílaleiga Akureyrar leggi ævinlega áherslu á að bjóða upp á góða þjónustu og nýlegar og góðar bifreiðar. Nú nýverið var gengið frá stærsta einstaka bílakaupasamningi í sögu fyrirtæksins þegar samið var við Öskju um kaup á 480 bílum af gerðinni Kia og Bens. Gert er ráð fyrir að í ár verði keyptir í heildina keyptir um 1.600 nýir bílar þ.a. þetta er mjög stórt hlutfall af heildarkaupunum. „Við endurnýjum okkar flota reglulega, það er liður í því að tryggja að okkar viðskiptavinir aki um á nýlegum og öruggum bílum. Orkuskiptin eru í fullum gangi hjá okkur og stefnum við á að hlutfall rafmagns- og tengiltvinnbíla verði komið yfir 30% í lok þess árs.