Fyrirhugað er að ráðast í framkvæmdir í Hlíðarfjalli í haust þar sem stefnt er að því að bæta við annarri
barnalyftu, ásamt því að bæta nestisaðstöðu fyrir skíðafólk. „Við stefnum að því að setja upp barnalyftu
sunnan við núverandi Hólabraut. Við teljum að þegar er kominn sæmilegur fjöldi í fjallið að þá sé sú
þjónusta sprungin og raðir farnar að myndast," segir Kristinn H. Svanbergsson, deildarstjóri íþróttadeildar Akureyrarbæjar.
„Við viljum sýna með þessu að viljum taka einhver skref áfram til að mæta okkar viðskiptavinum." Til þess að bæta
nestisaðstöðuna segir Kristinn að stefnt sé að því að reisa sumarhús eða heilsárshús til viðbótar við
Skíðahótelið. Einnig er fyrirhugað að bæta við skíðaleiguna á svæðinu. „Þetta er það sem við erum að
vinna í að gera. Þetta er ekkert endanlega nelgt niður og er allt saman í vinnslu ennþá," segir Kristinn.