Pollamót Þórs og Icelandair, fyrir eldri knattspyrnupilta- og stúlkur, verður haldið í 25. skipti á Þórssvæðinu á Akureyri 6. og 7. júlí næstkomandi. Mikið verður um dýrðir og flott skemmtiatriði á mótssvæðinu við Hamar bæði að kvöldi föstudags og laugardags í tilefni afmælisins, og 150 ára afmælis Akureyrarkaupstaðar. Leikið er á föstudag og laugardag. Stefnt er að því að mótið verði sannkölluð fjölskylduhátíð, leiktæki verða á svæðinu fyrir börn allan tímann og á föstudagskvöldið verður grillveisla þar sem hægt verður að kaupa veitingar gegn vægu gjaldi. Jónsi, söngvari hljómsveitarinnar Í svörtum fötum, treður m.a. upp á föstudagskvöldið og við verðlaunaafhendingu á laugardagskvöldinu verður Ingó Veðurguð með tónleika. Þá verður einnig grillveisla við Hamar. Ókeypis tjaldstæði eru í boði á svæðinu fyrir þátttakendur og fjölskyldur þeirra. Keppt er í tveimur flokkum kvenna: 20 ára og eldri etja kappi í Skvísudeild og 30 ára og eldri í Ljónynjudeild. Karlaflokkarnir eru þrír: 30 ára og eldri taka þátt í Polladeild, 40 ára og eldri í Lávarðadeild og 45 ára og eldri reyna með sér í Öldungadeild