Hann segir að forsögu málsins megi rekja til þess að í skýrslu sem unnin var af starfshópi fyrir samgönguráðuneytið síðla árs 2007 um móttöku skemmtiferðaskipa. Í henni kemur fram að að aukning í komum skemmtiferðaskipa til Íslands væri mest í Reykjavík og Akureyri og að með bættri aðstöðu fyrir skemmtiferðaskip og farþega megi bæði stuðla að fleiri skipakomum og eins að nýta betur þau tækifæri sem þessi starfsemi hefur hér á landi. Meðal tillagna nefndarinnar var að koma þyrfti upp þjónustubyggingu til móttöku farþega skemmtiferðaskipa, slík aðstaða þyrfti að vera samkeppnishæf í Reykjavík og góð á Akureyri eins og það er orðað. Þá þurfi að sjá farþegum skipanna fyrir nauðsynlegri grunnaðstöðu á viðkomustöðunum, s.s. hreinlætisaðstöðu.
Iðnaðaráðuneytið, sem nú fer með ferðamál ákvað að veita 100 milljónum króna af byggðaáætlun sem gildir til ársins 2009 til að styrkja uppbyggingu í ferðaþjónustu og renna þar með frekari stoðum undir uppbyggingu atvinnugreinarinnar á landsbyggðinni. Styrkirnir skiptast í tvo flokka og er nauðsynlegt að verkefnið sé atvinnuskapandi á viðkomandi svæði. Í öðrum þeirra eru til ráðstöfunar 30 milljónir króna, en hann er eyrnamerktur móttökuaðstöðu í höfnum fyrir farþega skemmtiferðaskipa.
"Þessi styrkur ýtti við okkur hér, við sóttum um en það kemur svo í ljós hvort okkur verði úthlutað fé. Við höfum látið Arkitekta - og verkfræðistofu Hauks teikna fyrir okkur 125 fermetra hús á einni hæð sem komið verður fyrir á hafnarsvæðinu vestan Oddeyrarbryggju þar sem nú er fyrir lítið timburhús," segir Hörður, en í húsinu verða snyrtingar, sími og netaðstaða auk þess sem rými verður fyrir sölubása með íslenskt handverk svo eitthvað sé nefnt. Þá verða marg konar bæklingar um land og þjóð til reiðu í húsinu og vísir að upplýsingamiðstöð.
Hörður segir að gangi allt upp, styrkurinn fáist sem og jákvætt svar frá skipulagsnefnd verði hægt að hefjast handa með haustinu, en ekki er ráðlegt að standa í miklum byggingaframkvæmdum á háannatíma yfir sumarið. Gert er ráð fyrir að 62 skemmtiferðaskip komi til Akureyrar á komandi sumri og með þeim um 60 til 70 þúsund manns í allt.