Stefnir í baráttu hjá VG á Akureyri um fyrsta sætið

Það stefnir í baráttu um efsta sætið á framboðslista Vinstri grænna á Akureyri fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor. Andrea Hjálmsdóttir, aðjunkt við Háskólann á Akureyri, er að íhuga það alvarlega að bjóða sig fram í 1. sætið. Áður hafði Baldvin H. Sigurðsson bæjarfulltrúi og oddviti flokksins í bæjarsstjórn gefið það út að hann stefndi að því að leiða listann áfram.  

Andrea sagði að það vantaði nýtt og ferskt fólk í VG og í bæjarstjórn Akureyrar og það mun skýrarst á allra næstu dögum hvort hún tekur slaginn. Kristín Sigfúsdóttir, hinn bæjarfulltrúi VG á Akureyri, hefur ákveðið að stíga til hliðar og mun ekki gefa kost á sér í eitt af efstu sætunum á lista flokksins í vor, eins og fram hefur komið.

Á félagafundi svæðisfélags Vinstri grænna á Akureyri og nágrenni nýlega, var samþykkt að forval yrði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor og verður það haldið laugardaginn 6. febrúar nk., á 11 ára afmæli flokksins. Valið verður í sex efstu sæti framboðslistans og verður jafn hlutur kynja tryggður við endanlega uppröðun ef þörf krefur, gegnum paraðan fléttulista. Framboðsfrestur rennur út laugardaginn 16. janúar.

Nýjast