Skákþing Norðlendinga, hið 78. í röðinni, fór fram á Akureyri um hvítasunnuhelgina. Tuttugu meistarar mættu til leiks í opnum flokki. Þar bar Davíð Kjartansson úr Reykjavík sigur úr býtum, fékk 6 vinninga í 7 skákum. Annar varð alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson og þriðji Þór Valtýsson. Þar sem þeir eiga allir lögheimili utan Norðurlands og geta því ekki unnið meistaratitilinn, kom meistarinn úr hópi þeirra þeirra keppenda sem höfnuðu í 4-6. sæti. Þar urðu jafnir Akureyringarnir Stefán Bergsson, Rúnar Sigurpálsson og Tómas Veigar Sigurðarson og reyndist Stefán hlutskarpastur þeirra þegar til stigaútreiknings kom. Hann hampar titilinum nú í 2. sinn; varð síðast meistari árið 2008. Meistari í unglingaflokki varð Jón Kristinn Þorgeirsson.
Nú var einnig telft í kvennaflokki í fyrsta sinn um árabil. Þar mættu sex skákkonur til leiks og varð Sveinfríður Halldórsdóttir húsfreyja á Grund í Svínadal hlutskörpust; vann allar skákir sínar 5 að tölu, en hin 12 ára gamla Tinna Ósk Ompi Rúnarsdóttir frá Akureyri varð önnur. Að venju lauk skákþinginu með hraðskákmóti, þar sem Rúnar Sigurpálsson sigraði en fráfarandi meistari, Áskell Örn Kárason, varð annar. Er þetta í 15. sinn sem Rúnar hampar hraðskákmeistaratitlinum.