Spariskógardagur Skógræktarfélags Eyfirðinga verður haldinn á Birkivelli í Kjarnaskógi í dag, sunnudag klukkan 13.
„Maður er manns gaman, við skemmtum okkur sjálf og upplifum allt það góða sem skógurinn okkar hefur upp á að bjóða eins og fallegu trén, leiksvæðin, lognið, samveru/einveru sem og ómælda almenna lýðhelsu,“ segir í tilkynningu um viðburðinn.
Hvatt er er til lautarferðar með fjölskyldunni og taka með sér gott nesti. Þá verður boðið upp á eldbakað popp, ketilkaffi og djús. Ísbúð Akureyrar verður á staðnum með ísavagninn og Netto býður upp á ávexti.
Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur fræðir gesti um undraheim sveppanna, sambýli sem og neðanjarðarhagkerfi þeirra og trjáa skógarins jafnframt því að sýna nýtínda sveppi af Kjarnamelunum.
„Unga fólkið okkar sem jafnframt eru framtíðar náttúrufræðingar landsins verður gjarnan dolfallið af kynningu Gyðu sem hún hefur haldið úti um árabil. Einnig er velkomið að taka með sér nýtýndan svepp að heiman og fá greiningu sérfræðings, segir í tilkynningunni.
Klukkan 13:30 mætir Íþróttaálfurinn sjálfur á Kirsuberjaflötina við ærslabelginn með heilsuræktarprógrammið sitt og þegar allir eru búnir að reyna svolítið á sig mætir Daníel Töframaður svo á sama stað og fremur nokkur galdrabrögð í framhaldinu. Þá mun Fornbílaklúbburinn mæta með nokkra bíla til að sýna gestum.
Ljúfir tónar munu líka líða um skóginn en Birkibandið verður með sína árlegu Spari-Sparitónleika á flötinni við Grillhúsið og alveg óhætt að biðja um eitt og eitt óskalag.