Sparisjóðirnir og Símenntun Háskólans á Akureyri (SMAHA) sameinast um fræðslu fyrir eldri borgara í upplýsingaöryggi

Frá vinstri Stefán Guðnason, forstöðumaður SMHA og Óli Birgir Birgisson verkefnastjóra hjá Sambandi …
Frá vinstri Stefán Guðnason, forstöðumaður SMHA og Óli Birgir Birgisson verkefnastjóra hjá Sambandi íslenskra sparisjóða

Sparisjóðirnir og Símenntun Háskólans á Akureyri hafa tekið höndum saman um samfélagsverkefni sem miðar að því að fræða eldri borgara um upplýsingaöryggi. Markmiðið er að fræða um helstu hættur sem fylgja netinu og notkun snjalltækja á einfaldan og aðgengilegan hátt.

Fræðslan fer fram á heimasvæði hvers sparisjóðs og verður boðið upp á kaffi og veitingar. Þetta er frábært tækifæri fyrir þátttakendur til að læra, spyrja og hitta aðra í sömu sporum.

Af hverju er þetta mikilvægt?

Undanfarin ár hafa netsvik og blekkingar á netinu aukist verulega og eru eldri borgarar oft í áhættu. Svindlarar nýta sér traust og reynsluleysi í stafrænum samskiptum til að komast yfir persónuupplýsingar eða fjármuni. Með einfaldri og aðgengilegri fræðslu getum við hjálpað eldri borgurum að þekkja varúðarmerkin, forðast hættur og nota tæknina á öruggan hátt.

„Við viljum leggja okkar að mörkum í að styrkja og efla sjálfstæði og öryggi eldri borgara í stafrænum heimi. Ég hlakka mjög mikið til að hitta fólkið og ræða við það um þessi mál,“ segir Óli Birgir Birgisson verkefnastjóri hjá Sambandi íslenskra sparisjóða (SÍSP) og umsjónaraðili fræðslunnar.

"Við erum afar ánægð með þetta samstarf við Sparisjóðina. Þetta viðfangsefni er okkur mjög hugleikið og höfum við einmitt verið að leiða erlent samstarfsverkefni um upplýsingaöryggi og notkun eldri borgara á netinu og snjalltækjum. Þessi fræðsla smellpassar við þá vegferð sem við erum í tengt þessum málum,“ segir segir Stefán Guðnason, forstöðumaður SMHA.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Stefán Guðnason, forstöðumann SMHA og Óla Birgi Birgisson verkefnastjóra hjá Sambandi íslenskra sparisjóða (SÍSP).

Hver fræðsluviðburður verður auglýstur sérstaklega auk þess sem það verða birtar nánari upplýsingar á heimasíðum og samfélagsmiðlum Sparisjóðanna og Símenntunar HA.

Sparisjóðirnir eru þrír talsins: Sparisjóður Austurlands, Sparisjóður Þingeyinga og Smári Sparisjóður (áður Sparisjóður Höfðhverfinga og Strandamanna).

Nýjast