Spara á í styrkjum til almenningssamgangna um 10% á næsta ári

Vegna niðurskurðar á fjárveitingum og nokkurs hallareksturs er nauðsynlegt að draga saman og spara í styrkjum til almenningssamgangna sem nemur um 10 prósentum á næsta ári. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2010 nema fjárframlög til styrkja til almennings- samgangna 1.350 milljónum króna. Með eftirfarandi hugmyndum er ætlunin að spara 130 - 140 milljónir króna.  

Fjárlagaliðirnir eru tvískiptir, annarsvegar ferjur og sérleyfi og hinsvegar flug. Styrkirnir miðast fyrst og fremst við fjölda ferða og verða gerðar ýmsar breytingar. Grímseyjarferjan Sæfari fer þrjár ferðir í viku á þessu ári en á því næsta er gert ráð fyrir að farnar verði 2 ferðir á viku tímabilin janúar-mars og nóvember-desember. Hríseyjarferjan Sævar fór 77 ferðir í viku sl. sumar en næsta sumar verða farnar 63 ferðir í viku. Yfir vetrartímann í ár eru farnar 44 ferðir í viku milli Árskógssands og Hríeyjar en á næsta ári verða farnar 38 ferðir í viku yfir vetrartímann.

Einnig er gert ráð fyrir samdrætti í akstri á sérleyfsileiðum víðs vegar um land. Í ár eru farnar 18 ferðir á viku á milli Húsavíkur og Akureyrar en á næsta ári verða farnar 14 ferðir á viku. Í ár eru farnar 5 ferðir á viku milli Akureyrar, Raufarhafnar og Þórshafnar en á næsta ári verða farnar 3 ferðir á viku milli þessara staða. Rétt er að minna á að rekstraraðilum er að sjálfsögðu heimilt að fara fleiri ferðir þótt Vegagerðin styrki þær ekki, segir m.a. í fréttatilkynningu.

Nýjast