Fjárlagaliðirnir eru tvískiptir, annarsvegar ferjur og sérleyfi og hinsvegar flug. Styrkirnir miðast fyrst og fremst við fjölda ferða og verða gerðar ýmsar breytingar. Grímseyjarferjan Sæfari fer þrjár ferðir í viku á þessu ári en á því næsta er gert ráð fyrir að farnar verði 2 ferðir á viku tímabilin janúar-mars og nóvember-desember. Hríseyjarferjan Sævar fór 77 ferðir í viku sl. sumar en næsta sumar verða farnar 63 ferðir í viku. Yfir vetrartímann í ár eru farnar 44 ferðir í viku milli Árskógssands og Hríeyjar en á næsta ári verða farnar 38 ferðir í viku yfir vetrartímann.
Einnig er gert ráð fyrir samdrætti í akstri á sérleyfsileiðum víðs vegar um land. Í ár eru farnar 18 ferðir á viku á milli Húsavíkur og Akureyrar en á næsta ári verða farnar 14 ferðir á viku. Í ár eru farnar 5 ferðir á viku milli Akureyrar, Raufarhafnar og Þórshafnar en á næsta ári verða farnar 3 ferðir á viku milli þessara staða. Rétt er að minna á að rekstraraðilum er að sjálfsögðu heimilt að fara fleiri ferðir þótt Vegagerðin styrki þær ekki, segir m.a. í fréttatilkynningu.