Sótt hefur verið um leyfi til reksturs ölstofu á neðstu hæð Hafnarstrætis 95 við göngugötuna á Akureyri. Þar hefur um árabil verið rekið apótek,m.a. Stjörnuapótek í eina tíð og síðar Apótekarinn, en því var lokað nú nýverið.
Í húsnæðinu var í eina tíð framleiðsla á lyfjum og eru ýmis konar rými til staðar og kompur sem þarf að rífa niður svo hægt sé að nýta húsið í samræmi við nýtt hlutverk að því er fram kemur í erindi til skipulagsráðs þar sem sótt er um rekstur fyrir öl-/veitingarstofu á hæðinni. Nýjum inngangi yrði komi fyrir beint út í Hafnarstræti.
Ýmsu verður breytt og m.a. sett upp ný og fleiri salerni. Aðstaða fyrir starfsfólk er nú þegar innst í rýminu og yrði hún nýtt áfram. Þar eru tvö salerni, kaffistofa og starfsmannaskápar. Áætlaður fjöldi starfsfólks er 7 manns
Skipulagsráð telur umsóknina samræmast gildandi deiliskipulagi svæðisins og gerir því ekki athugasemd við að gefið verði leyfi fyrir rekstri ölstofu í rýminu, að uppfylltum öllum öryggis- og heilbrigðiskröfum.