Sóknarprestum líst vel á kirkjugarð í Naustaborgum

Nýtt svæði fyrir kirkjugarð í Naustaborgum á Akureyri hefur verið kynnt fyrir skipulagsnefnd og bæjarstjóra. Um er að ræða svæði ofan við byggð í Naustahverfi, milli tjaldsvæðisins að Hömrum og golfvallarins og er gert ráð fyrir að þar verði framtíðarsvæði Kirkjugarða Akureyrar. Sóknarprestunum, séra Svavari Alfreð Jónssyni í Akureyrarkirkju og séra Gunnlaugi Garðarssyni í Glerárkirkju, líst vel á þær hugmyndir.

„Mér líst vel á hugmyndir um staðsetningu á nýjum kirkjugarði," segir sr. Svavar Alfreð. Hann segir svæðið bjóða upp á marga möguleika, í göngufæri við byggð en samt vel afmarkað. Það er bæði hluti af náttúru og bæ. „Ef þessar hugmyndir ná fram að ganga verður kirkjugarðurinn friðsælt útivistarsvæði en það gleymist oft að kirkjugarðar eru ekki síður fyrir lifandi en dauða," segir Svavar. Hann bendir einnig á að ný kirkja í Naustahverfi verður ekki langt frá garðinum. Þá er stutt í gamla garðinn á Höfðanum og þá ágætu aðstöðu sem þar er til staðar en reikna verður með að grafið verði í gamla garðinum löngu eftir að sá nýi er kominn í notkun. Sóknarpresturinn í Glerárkirkju tekur í sama streng. „Ég fæ ekki betur séð en sóknarnefnd og framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar hafi unnið góða vinnu, þetta er vel ígrunduð tillaga og ég vona svo sannarlega að hún fái framgang," segir sr. Gunnlaugur Garðarsson í Glerárkirkju. Miðað við þá valkosti sem fyrir voru í stöðunni sýnist honum sem besta mögulega lausn hafi orðið fyrir valinu, þ.e. að nýr kirkjugarður verði í Naustaborgum. „Ég er mjög ánægður með þessa tillögu."

Nýjast