24. febrúar, 2007 - 13:27
Snjó hefur kyngt niður á Akureyri frá því í gærkvöld og er nú um og yfir 10 cm snjólag yfir öllu, með tilheyrandi hálku á götum bæjarins. Í Hlíðarfjalli er mikið líf og fjör, eins og gefur að skilja og margir á skíðum, að sögn Guðmundar Karls Jónssonar forstöðumanns. Guðmundur Karl sagði að það gengi á með éljum í fjallinu en að þar væru aðstæður til skíðaiðkunar hinar bestu. Í dag er opið til kl. 17 og á morgun sunnudag frá kl. 10-17. Veðurstofan gerir ráð fyrir áframhaldandi norðan og norðaustan á morgun, með éljagangi norðantil og svipuðu veðri næstu daga á eftir.