Símenntun Háskólans á Akureyri, SMHA, hefur á undanförnum árum unnið að því að festa sig í sessi sem sniðugasta símenntunareining landsins. Með ríka áherslu á sveigjanleika og aðgengi býður SMHA upp á fjölbreytt námsframboð sem hentar bæði einstaklingum sem vilja efla sig í starfi og fyrirtækjum og stofnunum sem leita leiða til að styrkja mannauð sinn. Námið er kennt með fjölbreyttum hætti, bæði í fjarnámi, staðnámi og í blönduðu formi, sem gerir þátttöku mögulega, óháð búsetu eða vinnuaðstæðum.
Starfsemin hefur vaxið hratt síðustu misserin og náð út fyrir landsteinana með virkri þátttöku í alþjóðlegum verkefnum. SMHA leiðir nú þrjú evrópsk samstarfsverkefni, þar sem eitt þeirra snýr sérstaklega að því að efla netöryggi fólks á þriðja æviskeiði. Með þessu er brugðist við sívaxandi þörf fyrir stafræna hæfni meðal eldri borgara og tryggt að þessi hópur geti tekið virkan þátt í nútímasamfélagi með öryggi og trausti.
Alþjóðlegt samstarf SMHA nær einnig til námsframboðs og nýsköpunar í kennsluháttum. Nærtækt dæmi er samvinna við University of the Highlands and Islands í Skotlandi, þar sem Íslendingum býðst að stunda háskólanám á meistarastigi alfarið í fjarnámi við erlendan háskóla. Í boði eru meðal annars MBA-nám, mannauðsstjórnun, sjálfbærni og verkfræði. Þetta samstarf hefur reynst vel og vakið athygli fyrir gæði, sveigjanleika og góða þjónustu við nemendur. Þá hefur SMHA einnig átt í samstarfi við Örebro-háskóla í Svíþjóð um B.S. gráðu í heyrnarfræði sem kemur að góðum notum hér á landi, þar sem skortur er á menntuðum sérfræðingum á því sviði.
Á sama tíma hefur SMHA byggt upp sterk tengsl innanlands og tekið virkan þátt í að efla starfsmenntun á ýmsum sviðum. Þar má nefna samstarf við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um utanumhald á Brunamálaskólanum. Einnig er unnið náið með fjölmörgum félagasamtökum, sveitarfélögum og stofnunum að gerð sérsniðinna námsleiða fyrir starfsmenn og félagsmenn.
Stjórnendanámið sem SMHA heldur utan um í samstarfi við STF, er svo geimsteinninn á kórónunni. Námið, sem spannar fimm lotur og er kennt alfarið í fjarnámi, hefur notið mikilla vinsælda meðal millistjórnenda, sem og fólks sem vill tileinka sér betri starfshætti, um allt land. Það sameinar fræðilega dýpt við hagnýta nálgun og styður markvisst við fólk í ábyrgðarstöðum sem vill styrkja forystu sína, efla stefnumótunarfærni og bæta rekstrarskilning sinn í síbreytilegu starfsumhverfi. Útskriftarnemar koma víða að og bera náminu gott vitni.

Hópur frá Símenntun á ferðinni í Leiðsögunáminu
Fjölmörg styttri námskeið eru í boði, m.a. Verkefnastjórnun með vottun, gervigreindarnámskeið, skattskil, bókhaldsfræðsla og svo mætti lengi telja.
Með þessu öllu saman sýnir SMHA að framsækin og sveigjanleg menntun er raunhæf og aðgengileg leið til að styrkja samfélagið, efla atvinnulífið og mæta breyttum þörfum einstaklinga á öllum æviskeiðum. Þekking, reynsla og öflug tengslanet gera stofnunina að traustum samstarfsaðila í nútímalegri menntun, hvort sem litið er til einstaklinga, fyrirtækja eða hins opinbera.
