Sláturtíð á Húsavík ekki gengið betur í annan tíma

Sláturtíð hefur ekki í annan tíma gengið betur en í haust, að sögn Sigmundar Hreiðarssonar stöðvarstjóra Norðlenska á Húsavík. Þar á bæ var slátrað 72.439 lömbum og 4.795 fullorðum ám, alls 200 fleiri en í fyrra. Þess má og geta til gamans að Grímur á Rauðá kom með 13 geitur til slátrunar.   

Meðalvigt í sláturhúsinu á Húsavík í haust var 16,11 kg, 30 grömmum meira en í fyrra en á Höfn var meðalþyngdin 15,30 kg, 70 gr. meira en síðasta haust.  Fita er örlítið meiri en árið 2008 á Húsavík en heldur minni á Höfn en árið áður. Kjötgerð lækkaði aðeins á Húsavík frá fyrra ári en var nánast sú sama á Höfn. „Ég held það verði erfitt að toppa þessa sláturtíð," segir Sigmundur Hreiðarsson, stöðvarstjóri Norðlenska á Húsavík. „Akstur gekk afburða vel og mjög lítið var um að fé dræpist í flutningum. Það ber helst að þakka þeim sem vinna við flutningana hjá Reyni í Brekku og Sigga á Mælivöllum." 

Sigmundur segir að verkun hafi aldrei gengið eins vel. „Einn daginn voru tveir skrokkar af 1.500 gallaðir, sem er aðeins 0,13%. Læri á öðrum var skemmt en hinn bógrifinn. Það er langt síðan við höfum haft viðlíka mannskap við slátrunina, það á reyndar ekki bara við hvað verkun varðar, því við munum ekki eftir eins litlum veikindum í sláturtíð og það er ekki lítils virði." Þetta kemur fram á vef Norðlenska.

Nýjast