Skútustaðahreppur: Vilja aukið fé í vetrarþjónustu á ferðamannaleiðum

Vetur í Mývatnssveit. Mynd: BFH.
Vetur í Mývatnssveit. Mynd: BFH.

 

Á fundi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps  9. mars s.l. urðu töluverðar umræður um vetrarþjónustu á leiðum að vinsælum ferðamannastöðum í Mývatnssveit. Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu sem samþykkt var samhljóða:

„Sveitarstjórn Skútustaðahrepps skorar á samgönguyfirvöld og þingmenn NA kjördæmis að beita sér fyrir auknum fjárveitingum til vetrarþjónustu á leiðum að vinsælum náttúruperlum og ferðamannastöðum. Á undanförnum árum hefur umferð aukist stórlega yfir vetrarmánuðina án þess að þjónusta hafi aukist að sama skapi. Þetta hefur leitt til óþarfa álags á björgunarsveitir og aðra þjónustuaðila sem brugðist hafa við í hvert skipti sem vandamál koma upp.

Vegakerfið gegnir lykilhlutverki í því markmiði að ná fram dreifingu ferðamanna og jákvæðri upplifun, sem sett er fram í Vegvísi ferðaþjónustunnar. Auk þess er hér um öryggismál að ræða. Snjómokstur og hálkuvarnir á vinsælum leiðum, bæði á vegum og gönguleiðum, er því grundvallaratriði að þeim markmiðum og er auk þess grundvallarforsenda fyrir því að hægt sé að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem til staðar eru í vetrarferðamennsku í  Mývatnssveit og víðar á landsbyggðinni.“ JS

Nýjast