Ef ekki verður brugðist skjótt við er ljóst að fiskvinnslufyrirtæki víða um land eru nauðbeygð til að grípa til lokana um lengri eða skemmri tíma með alvarlegum afleiðingum fyrir starfsfólkið, fyrirtækin og gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Erfið staða efnahagsmála, þröng kvótastaða margra fyrirtækja og óljós áform stjórnvalda um breytingar á fiskveiðilöggjöfinni magna upp óvissu í greininni sem veldur spennu víða um land. Menn vilja vinnufrið og efasemdaraddir um að nú sé rétti tíminn til að breyta verða sífellt háværari. Dalvíkurbyggð á mikið undir því að stöðugleiki ríki í sjávarútvegi; stór hluti íbúanna vinnur við sjávarútveg þar sem fiskvinnsla er snar þáttur í atvinnustarfseminni. Ef ekki næst sátt milli aðila mun það hafa í för með sér langvarandi deilur með tilheyrandi óvissu og valda verulegum skaða fyrir sjárvarpláss eins og Dalvikurbyggð, og þjóðfélagið í heild, segir ennfremur í ályktun atvinnumálanefndar Dalvíkurbyggðar.